Erlent

Hlutfall minnihlutahópa meðal starfsmanna drottningar 8,5 prósent

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Langt fram á síðustu öld var minnihlutahópum meinað að sinna skrifstofustörfum á vegum krúnunnar.
Langt fram á síðustu öld var minnihlutahópum meinað að sinna skrifstofustörfum á vegum krúnunnar. epa/Neil Hall

Breska krúnan hefur í fyrsta sinn upplýst um hlutfall minnihlutahópa sem starfa fyrir konungsfjölskylduna. Hlutfallið er 8,5 prósent en stefnt er að því að bæta það og ná 10 prósentum fyrir árslok 2022.

Samkvæmt manntalinu 2011 tilheyrðu 14 prósent íbúa England og Wales minnihlutahópum, það er voru ekki hvít, en í Skotlandi er hlutfallið 4 prósent. Í Lundúnum er hlutfallið 40 prósent.

Ástæðu þess að upplýsingarnar um hlutfall minnihluta meðal starfsmanna krúnunnar eru gerðar opinberar núna má eflaust meðal annars rekja til viðtals hertogahjónanna af Sussex við spjallþáttastjórnandann Opruh Winfrey.

Í viðtalinu sögðu þau að ónefndir aðilar innan fjölskyldunnar hefðu velt fyrir sér litarhafti ófædds sonar hjónanna en í kjölfarið barst fjölmiðlum tilkynning frá Buckingham-höll að ásakanirnar væru teknar alvarlega og yrðu skoðaðar.

Talsmaður hallarinnar hefur sagt að enn vanti nokkuð upp á að „fyrirtækið“ uppfylli eigin kröfur um fjölbreytileika. Hins vegar standi til að bæta um betur og héðan í frá verði tölfræðin birt árlega.

Þess má geta að fyrr í þessum mánuði greindi Guardian frá því að fram á 7. áratug síðustu aldar hefðu minnihlutahópar verið útilokaðir frá því að sinna skrifstofustörfum á vegum krúnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×