Reuters-fréttastofan hefur eftir dómsmálaráðuneyti sjálfstjórnarhéraðsins Katalóníu að allt bendi til þess að McAfee hafi stytt sér aldur í fangelsinu í Barcelona. Hann átt yfir höfði sér framsal til Bandaríkjanna þar sem hann er sakaður um skattsvik.
McAfee, sem var 75 ára gamall, var frumkvöðull í veiruvarnarforritum en þeim geira hefur síðan vaxið fiskur um hrygg. Hann hefur átt skrautlegan feril og er sakaður um fjölda afbrota í nokkrum löndum.
Bandarísk yfirvöld sökuðu McAfee um að skila ekki skattskýrslum í fjögur ár þrátt fyrir að hann hefði þénað milljónir dollara vegna ráðgjafarstarfa, ræðuhalda, fjárfestinga í rafmyntum og sölu á réttindum á ævisögu sinni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Árið 2019 gaf McAfee í skyn að hann hefði falið sig á Dalvík um hríð. Þá hafði hann verið á flótta eftir að hann var bendlaður við morð á nágranna sínum í Mið-Ameríkulandinu Belís árið 2012. Hann var handtekinn í Dóminíska lýðveldinu fyrr um árið 2019 vegna vopnalagabrota og sagðist hann í kjölfarið ætla að fara huldu höfði.
Eigandi húss á Dalvík þar sem McAfee átti að hafa dvalið efaðist um frásögn McAfee og taldi líklegt að hann gæti hafa reynt að afvegaleiða yfirvöld um hvar hann héldi til.
Spænsk yfirvöld handtóku McAfee í október. Hann hafði þá einnig verið kærður fyrir svik með rafmyntir í Bandaríkjunum.
Fréttin verður uppfærð.