Erlent

Ætlar að veita kata­lónskum að­skilnaðar­sinnum upp­reist æru

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, leggur til á ríkisstjórnarfundi á morgunn að ellefu leiðtogar katalónskra aðskilnaðarsinna verði náðaðir.
Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, leggur til á ríkisstjórnarfundi á morgunn að ellefu leiðtogar katalónskra aðskilnaðarsinna verði náðaðir. EPA-EFE/QUIQUE GARCIA

Forsætisráðherra Spánar hefur tilkynnt það að hann hyggist veita katalónskum aðskilnaðarsinnum uppreist æru í þessari viku. Níu leiðtogar aðskilnaðarhreyfingarinnar voru fangelsaðir fyrir að hafa boðað til sjálfstæðisbyltingar árið 2017.

Þrír til viðbótar voru dæmdir fyrir borgaralega óhlýðni en voru ekki fangelsaðir. Mál þeirra verða tekin fyrir á ríkisstjórnarfundi á morgun, þriðjudag.

Tugir þúsunda mótmæltu þessum áformum fyrr í þessum mánuði en ríkisstjórnin segir ákvörðunina til þess gerða að milda óróleika í Katalóníu. Sjálfstæðisbarátta í héraðinu, sem er hálfsjálfstætt, hófst af fullri alvöru að nýju fyrir fjórum árum síðan. Baráttan leiddi til einnar verstu stjórnmálakreppu Spánar í nær 40 ár.

Katalónar tóku ekki vel á móti Sánchez í Barselóna í dag.EPA-EFE/Enric Fontcuberta

Mótmælendur þessara áforma eru ekki þeir einu sem eru ósáttir með ríkisstjórnina en aðskilnaðarsinnar hafa gagnrýnt hana fyrir að grípa til þessa ráðs einungis til að byggja upp meiri pólitískan stuðning.

„Á morgun, með fyrirgefningu að leiðarljósi, mun ég leggja það til að ríkisstjórnin samþykki náðunina,“ sagði Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, í ræðu í Barcelona í dag.

Svo virðist sem meirihluti Spánverja sé mótfallinn náðuninni en samkvæmt könnun sem spænska dagblaðið El Mundo gerði voru 61 prósent þátttakenda mótfallnir því að náða skyldi leiðtoga aðskilnaðarsinnanna. Þá hefur Hæstiréttur Spánar einnig mótmælt ákvörðuninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×