Erlent

Palestínu­menn af­þakka bólu­efni frá Ísrael

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Palestína afþakkaði bóluefni frá Ísrael eftir að í ljós kom að það var við það að renna út.
Palestína afþakkaði bóluefni frá Ísrael eftir að í ljós kom að það var við það að renna út. EPA-EFE/MOHAMMED SABER

Palestínsk yfirvöld hafa dregið sig út úr samningi við Ísrael en samkvæmt honum átti Palestína að fá minnst milljón skammta af Covid-19 bóluefni. Palestínumenn segja Pfizer-skammtana of nálægt því að renna út.

Ætlunin var sú að flýta fyrir bólusetningu Palestínumanna en Ísraelsríki gerði samkomulag við Pfizer um fjórðu stigs tilraunir á bóluefninu og fékk bóluefnið afhent mun hraðar en önnur ríki. Palestína átti svo að skila jafn mörgum skömmtum af bóluefninu síðar á þessu ári þegar ríkið fær bóluefni afhent.

Mai Alkaila, heilbrigðisráðherra Palestínu, sagði að bóluefnið sem Ísrael ætlaði að lána Palestínumönnum hafi átt að renna út í júlí eða ágúst en það bóluefni sem hafi borist renni út í júní.

„Það er ekki nægur tími fyrir okkur til að nota það, svo við höfnuðum því,“ sagði hún.

Þegar höfðu 90 þúsund skammtar frá Ísrael verið afhentir palestínskum heilbrigðisyfirvöldum en þeir sendir til baka. Í yfirlýsingu frá forsætisráðherra Palestínu segir að ríkisstjórnin neiti að taka við bóluefnaskömmtum sem eru við það að renna út. Frekar muni stjórnin bíða eftir þeim skömmtum sem von er á beint frá Pfizer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×