Fótbolti

Sveindís byrjar, Cecilía er í markinu og Hafrún í bakverðinum: Fimm breytingar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cecilía Rán Rúnarsdóttir byrjar í dag sinn þriðja A-landsleik á ferlinum. Hún fékk eitt mark á sig í hinum tveimur.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir byrjar í dag sinn þriðja A-landsleik á ferlinum. Hún fékk eitt mark á sig í hinum tveimur. Getty/Gabriele Maltinti

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, gerir fimm breytingar á byrjunarliðinu sínu fyrir seinni vináttulandsleikinn á móti Írlandi sem fer eins og sá fyrri fram á Laugardalsvellinum. Þrír kornungir leikmenn fá tækifærið í dag.

Íslensku stelpurnar unnu 3-2 sigur á Írum á föstudaginn var en þær komust þá í 3-0 í fyrri hálfleiknum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig íslenska liðið fylgir því eftir að hafa tapað seinni hálfleik þess leiks 2-0.

Leikurinn hefst klukkan 17.00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 4 og á Vísi.

Hin átján ára gamla Hafrún Rakel Halldórsdóttir og hin sautján ára gamla Cecilía Rán Rúnarsdóttir fá báðar tækifæri í dag en þær byrjuðu báðar annan vináttuleikinn á móti Ítölum í apríl og eru greinilega inn í myndinni hjá Þorsteini.

Sveindís Jane Jónsdóttir byrjar líka leikinn en hún kom ekkert við sögu í fyrri leiknum. Þá koma reynsluboltarnir Hallbera Guðný Gísladóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir báðar inn í liðið.

Sveindís Jane er nýorðin tvítug en þegar farinn að láta að sér kveða í sænsku úrvalsdeildinni.

Sandra Sigurðardóttir, Elísa Viðarsdóttir, Agla María Albertsdóttir, Elín Metta Jensen og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir fara allar á bekkinn en þær voru í byrjunarliðinu í fyrri leiknum.

Byrjunarlið Íslands í dag

  • Cecilía Rán Rúnarsdóttir
  • Hafrún Rakel Halldórsdóttir
  • Glódís Perla Viggósdóttir
  • Ingibjörg Sigurðardóttir
  • Hallbera Guðný Gísladóttir
  • Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir
  • Alexandra Jóhannsdóttir
  • Dagný Brynjarsdóttir
  • Sveindís Jane Jónsdóttir
  • Berglind Björg Þorvaldsdóttir
  • Karólína Lea Vilhjálmsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×