Innlent

„Það beið mín bara lítill vetur um miðjan júní“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Adolf Ingi er staddur á Norðurlandi þar sem snjókoma tók við honum í morgun.
Adolf Ingi er staddur á Norðurlandi þar sem snjókoma tók við honum í morgun. María Rós/Adolf Ingi

Nokkurra sentímetra snjólag beið Adolfs Inga Erlingssonar, ökuleiðsögumanns, þegar hann gekk út á pall í sumarbústað sínum á Vaðlaheiði í morgun.

„Það beið mín bara lítill vetur hérna um miðjan júní. Þetta er ekki það skemmtilegasta,“ segir Adolf Ingi í samtali við fréttastofu.

Reiknað er með talsverðri snjókomu á Austur- og Norðausturlandi í kvöld og nótt en veturinn virðist hafa mætt snemma fyrir norðan. Adolf Ingi segir kuldann hafa komið nokkuð á óvart, en mikil veðurblíða hafi verið á svæðinu í gær.

„Gærdagurinn var bara yndislegur. Hann var miklu betri en við áttum von á. Við vorum hérna í útskriftarveislu í gær og sátum úti í garði og dóttir mín er sólbrunnin eftir það. Núna er bara snjókoma,“ segir Adolf Ingi.

Fjölskyldan hefur átt sumarbústað á Vaðlaheiði um nokkra hríð og segist Adolf ekki muna eftir svona kuldakasti um mitt sumar.

„Það hefur nú stundum verið skítkalt þó sé komið hásumar en ég man ekki eftir að það hafi snjóað svona um miðjan júní.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×