Körfubolti

LeBron James ætlar að skipta um treyjunúmer

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James spilaði alltaf númer sex hjá Miami Heat.
LeBron James spilaði alltaf númer sex hjá Miami Heat. EPA/RHONA WISE

Bandaríski körfuboltamaðurinn LeBron James datt á dögunum í fyrsta sinn út úr úrslitakeppni NBA deildarinnar í fyrstu umferð og hann er byrjaður að breyta hlutum fyrir næsta tímabil.

James spilaði í treyju númer 23 á þessum tímabili með Los Angeles Lakers en svo verður ekki á næstu leiktíð. James hefur tekið þá ákvörðun að skipta í treyju númer sex. Liðsfélagi hans Anthony Davis ætlar að vera áfram númer þrjú.

Forráðamenn Lakers og treyjusöludeildar félagsins fagna þessu örugglega því þetta ætti að þýða stóraukna treyjusölu. James hefur verið vinsælasti körfuboltamaður Bandaríkjanna í langan tíma en hann hefur spilað í NBA deildinni frá árinu 2003.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem James spilar í treyju sex því hann hann spilaði í þessu númeri með bandaríska landsliðinu og vann tvo fyrstu meistaratitlana sína með Miami Heat í treyju númer sex.

James gat ekki spilað númer 23 með Miami Heat því félagið hafði hætt að nota það treyjunúmer til heiðurs Michael Jordan.

LeBron ætlaði að skipta yfir í sexuna sumarið 2019 þegar Lakers fékk til sín Davis af því að Anthony Davis var búinn að spila í númer 23 allan sinn feril fram að því. Nike kom í veg fyrir þá breytingu.

James valdi að spila í 23 á sínum tíma vegna Michael Jordan en vildi síðan fara í sexuna vegna þeirra Bill Russell og Julius "Dr. J" Erving sem spiluðu alltaf í númer sex.

James heldur upp á 37 ára afmælið sitt í desember næstkomandi en hann var með 25,0 stig, 7,7 fráköst og 7,8 stoðsendingar að meðaltali í deildinni á þessu tímabili.

Í einvíginu sem tapaðist á moti Phoenix Suns þá dugði það ekki Lakers liðinu að Lebron bauð upp á 23,3 stig, 7,2 fráköst og 8,0 stoðsendingar að meðaltali í leikjunum sex.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×