Körfubolti

Brooklyn æðir áfram og saknaði Hardens ekkert

Sindri Sverrisson skrifar
Kevin Durant keyrir að körfu Milwaukee en hann skoraði 32 stig í þremur leikhlutum í gær.
Kevin Durant keyrir að körfu Milwaukee en hann skoraði 32 stig í þremur leikhlutum í gær. Getty/Elsa

Þrátt fyrir að vera án James Harden vegna meiðsla þá völtuðu Brooklyn Nets hreinlega yfir Milwaukee Bucks í nótt og komust í 2-0 í einvígi liðanna í undanúrslitum vesturdeildar NBA-deildarinnar í körfubolta.

Kevin Durant skoraði 32 stig fyrir Brooklyn í fyrstu þremur leikhlutunum og Brooklyn náði mest 49 stiga forskoti í leiknum sem endaði þó 125-86.

Harden fór meiddur af velli eftir 43 sekúndur í fyrsta leik einvígisins en Brooklyn vann þá 115-107. Hann hefur glímt við meiðsli í læri og það er óvíst hvenær hann snýr aftur til leiks.

Harden virtist reyndar við hestaheilsu þegar hann spratt upp af bekknum og fagnaði síðustu körfu Durants, sem hafði stungið sér framhjá Giannis Antetokounmpo, komist að körfunni og skotið aftur fyrir sig.

Þetta var fjórði þrjátíu stiga leikur Durants í úrslitakeppninni en Kyrie Irving kom næstur honum með 22 stig. Antetokounmpo skoraði 18 stig og tók 11 fráköst fyrir Milwaukee en það dugði engan veginn til og hann settist á bekkinn snemma í fjórða leikhluta enda leikurinn þá löngu tapaður.

Liðin mætast aftur á fimmtudagskvöld en þá færist einvígið yfir til Milwaukee.

Phoenix Suns unnu svo fyrsta leik sinn við Denver Nuggets í undanúrslitum vesturdeildar. Denver var yfir stóran hluta leiksins og staðan var 70-60 snemma í þriðja leikhluta þegar Phoenix náði frábærum kafla og komst yfir, 79-72.

Chris Paul var svo magnaður í fjórða leikhlutanum og skoraði þar 14 stig, og sigurinn var aldrei í hættu.

Phoenix og Denver mætast aftur annað kvöld.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×