Erlent

Ó­víst hvort að sótt­varna­að­gerðum verður af­létt á Eng­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands.
Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands. Vísir/EPA

Heilbrigðisráðherra Bretlands segir of snemmt að segja til um hvort að ríkisstjórnin standi við áform sín um að aflétta þeim sóttvarnaaðgerðum sem eru enn í gildi vegna kórónuveirufaraldursins 21. júní.

Bresk stjórnvöld eru langt komin með bólusetningaráætlun sína og hafa þegar slakað á sóttvarnaaðgerðum sem hafa verið meira eða minna í gildi frá því á vordögum í fyrra. 

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra, lýsti hins vegar áhyggjum af svonefndu deltaafbrigði kórónuveirunnar sem hefur valdið usla á Indlandi undanfarnar vikur. Það er nú algengasta afbrigðið sem greinist á Englandi, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Afbrigðið er talið meira smitandi en þau sem hafa verið mest áberandi fram að þessu. Hancock sagði í sjónvarpsviðtali í dag að það veki bjartsýni að sjúkrahúsinnlögnum og dauðsföllum hafi ekki fjölgað þrátt fyrir að smitum fari nú fjölgandi. Bólusetningar hafi veikt, en þó ekki rofið, tengslin á milli veirunnar og sjúkrahúsinnlagna og dauðsfalla.

„Það er of snemmt að taka lokaákvörðun um það,“ sagði ráðherrann um hvort að tímabært væri að aflétta takmörkunum.

Ríkisstjórnin ætlaði sér að greina gögnin um þróun faraldursins í vikunni og kynna ákvörðun um framhald aðgerða með góðum fyrirvara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×