Tölfræðistofnun Bretlands (ONS) segir að smituðum hafi fjölgað um allt að 66 prósent á milli þessara tveggja vikna. Mikill meirihluti þeirra sem greindist smitaður reyndist hafa smitast af Delta-afbrigði veirunnar, sem fyrst greindist á Indlandi.
Smituðum hefur fjölgað mest í Englandi og Wales. Samkvæmt nýjustu smittölum greindust 6.278 í gær, 954 liggja nú á sjúkrahúsi vegna Covid og 11 dóu.
Tölfræðistofnunin bendir þó á að ráðist hafi verið í skimunarátak eftir að áhyggjur komu upp um að Delta-afbrigðið væri í dreifingu í Bretlandi. Það gæti því þýtt að hlutfallslega fleiri séu að greinast smitaðir þó svo að raunverulega séu svipað margir smitaðir af veirunni og voru áður, þeir hafi bara ekki greinst.
Delta-afbrigði veirunnar er talið mun meira smitandi en önnur afbrigði hennar og sumir hafa jafnvel áhyggjur af því að bóluefni veiti ekki jafn mikla vörn gegn þessu afbrigði veirunnar og öðrum.