Körfubolti

Ætlar frekar að spila með Kalla kanínu en á Ólympíuleikunum

Sindri Sverrisson skrifar
LeBron James fórnar höndum í tapinu gegn Phoenix Suns í nótt.
LeBron James fórnar höndum í tapinu gegn Phoenix Suns í nótt. Getty/Keith Birmingham

Körfuknattleiksmaðurinn LeBron James er kominn í sumarfrí í NBA-deildinni í körfubolta. Hann gaf sterklega til kynna að hann myndi ekki nýta fríið til að búa sig undir og keppa á Ólympíuleikunum í Tókýó.

James og félagar í LA Lakers féllu í nótt úr leik í 1. umferð úrslitakeppninnar í NBA, eftir 103-100 tap gegn Phoenix Suns og þar með 4-2 tap í einvígi liðanna. Meiðsli hafa gert James og fleirum í liði Lakers erfitt fyrir að verja titilinn, eftir stysta hlé á milli leiktíða í sögu NBA-deildarinnar, og nú er ljóst að það tókst ekki.

Keppni í körfubolta karla á Ólympíuleikunum hefst 25. júlí og lýkur 7. ágúst. James ætlar ekki að spila með Bandaríkjunum þar og nýtti tækifærið, aðspurður um Ólympíuleikana, til að minna á kvikmyndina Space Jam 2 sem sýnd verður í sumar. 

Í Space Jam 2 er James í aðalhlutverki ásamt fleiri körfuboltamönnum og að sjálfsögðu teiknimyndafígúrum á borð við Kalla kanínu, Oddi önd, Tasmaníuskollanum og fleirum.

„Ég held að ég muni frekar spila fyrir „Tune-hópinn“ í sumar en á Ólympíuleikunum,“ sagði James eftir tapið í nótt, og vísaði til liðsins sem hann spilar með í Space Jam 2, og Michael Jordan spilaði með í Space Jam.

„Það er það sem ég einbeiti mér að. Að reyna að vinna „Goon-hópinn“ eins og við köllum þá núna. Mér gekk ekkert sérstaklega vel á móti Suns svo að núna fer ég að hugsa um Goon-hópinn um miðjan júlí,“ sagði James, en þá verður kvikmyndin frumsýnd.

James sagði að aðalatriðið fyrir Lakers væri að Anthony Davis næði fullri heilsu í sumar. „Ég þarf líka að leyfa ökklanum að jafna sig. Ég veit að ég verð orðinn hundrað prósent þegar tímabilið hefst í október og við byggjum á því. Þetta ætti að gefa okkur mesta möguleika á árangri á næstu leiktíð,“ sagði James.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×