Erlent

Fimm táningar í Belgíu handteknir fyrir hópnauðgun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Árásin átti sér stað í kirkjugarði í borginni Ghent.
Árásin átti sér stað í kirkjugarði í borginni Ghent.

Fimm táningar hafa verið handteknir í Belgíu í tengslum við meinta hópnauðgun 14 ára stúlku sem lést minna en viku eftir árásina. Samkvæmt belgískum miðlum var myndum af árásinni deilt á netinu og stúlkan framdi sjálfsvíg fjórum dögum seinna.

Talsmaður belgíska ákæruvaldsins segir þrjá handteknu undir lögaldri og er þeim haldið á stofnun fyrir ungmenni. Hinir tveir eru hins vegar 18 og 19 ára og munu mæta í dómsal í dag.

Belgískir fjölmiðlar segja stúlkuna hafa ætlað að hitta karlkyns vin í kirkjugarði í borginni Ghent 15. maí síðastliðinn. Vinurinn er hins vegar sagður hafa mætt með fjórum öðrum og ráðist á stúlkuna. 

Myndir af árásinni birtust á samfélagsmiðlum.

„Myndirnar voru kornið sem fyllti mælinn... veröld hennar hrundi,“ sagði faðir stúlkunnar í samtali við dagblaðið Het Nieuwsblad.

Málið hefur vakið hörð viðbrögð meðal stjórnmálamanna og hefur jafnréttisráðherrann Sarah Schlitz heitið því að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir myndbirtingar af þessu tagi.

Dómsmálaráðherrann Vincent van Quickenborne birti færslu á Twitter þar sem hann sagði málið „hryllilegt“ og hvatti alla þolendur kynferðisofbeldis til að hafa samband við lögreglu. Allt yrði gert til að finna gerendurna og refsa þeim.

Í Belgíu eru um 200 hópnauðganir tilkynntar á ári.

BBC greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×