Tónlist

Mark Ruffa­lo aftur á bak stimplar sig inn af krafti

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Frá vinstri: Birgitta Björg Guðmarsdóttir, Eydís Egilsdóttir Kvaran, Guðný Margrét Eyjólfsdóttir, Iðunn Gígja Kristjánsdóttir og Sævar Andri Sigurðarson.
Frá vinstri: Birgitta Björg Guðmarsdóttir, Eydís Egilsdóttir Kvaran, Guðný Margrét Eyjólfsdóttir, Iðunn Gígja Kristjánsdóttir og Sævar Andri Sigurðarson. facebook/músíktilraunir

Hljóm­sveitin Ólafur Kram, sem sigraði Músík­til­raunir í gær, leggur mikið upp úr texta­gerð og hefur gjarnan þann háttinn á laga­smíðinni að semja textann fyrst og síðan hljóð­heim í kring um hann. Tveir með­limir hljóm­sveitarinnar voru enn að ná sér niður úr sigur­vímunni þegar Vísir náði tali af þeim í dag.

Músík­til­raunir hafa lengi verið stökk­pallur fyrir upp­rennandi tón­listar­fólk á Ís­landi og hafa margar af þekktustu hljóm­sveitum landsins hafið göngu sína með sigri í keppninni. Þar má nefna hljóm­sveitir á borð við Of Monsters and Men, Botn­leðju, Maus, Mínus, XXX Rottweil­er hunda og hver veit nema nýjasta sigur­vegarans Ólafs Kram verði innan nokkurra ára minnst sem eins þeirra bestu.

Nafn hljóm­sveitarinnar greip strax á­huga blaða­mannsins sem fékk út­skýringu á því frá Iðunni Gígju Kristjáns­dóttur, sem spilar á hljóm­borð og syngur fyrir hljóm­sveitina: „Þetta kom frá henni Birgittu Björg, sem spilar á trompet en hún fattaði það einn daginn að nafn leikarans Mark Ruffa­lo er Ólafur Kram aftur á bak.“

Hver elskar ekki Mark Ruffalo?getty/Steve Granitz

Þegar svo merki­legar upp­götvanir eru gerðar verður að nýta þær sem best og var á­kveðið að hér væri komið til­valið nafn á ís­lenska hljóm­sveit. Með­limir Ólafs Kram segjast þó ekki sér­stakir að­dá­endur Mark Ruffa­lo en eiga honum auðvitað öfugt nafnið að launa.

Lærði á bassa fyrir hljómsveitina

Hópurinn er til­tölu­lega ungur og saman­stendur af þeim Birgittu Björg Guð­mars­dóttur, sem spilar á trompet, Ey­dísi Egils­dóttur Kvaran raf­magns­gítar­leikara, Guð­nýju Margréti Eyjólfs­dóttur raf­magns­bassa­leikara, Iðunni Gígju Kristjáns­dóttur hljóm­borðs­leikara og Sæ­vari Andra Sigurðar­syni trommu­leikara. Auk hljóð­færa­leiksins sjá stelpurnar allar um sönginn.

Öll hafa þau stundað tón­listar­nám að ein­hverju leyti þó Ey­dís hafi raunar lært á fiðlu en spili á annað strengja­hljóð­færi fyrir hljóm­sveitina. Guð­ný Margrét lærði þá á harmóniku á barns­aldri en tók á­kvörðun um að læra sér­stak­lega á raf­magns­bassa til að geta spilað í hljóm­sveitinni.

Bandið tók til starfa vorið 2019 og hefur þegar gefið út tvö lög. Ey­dís segir að sex laga plata sé væntan­leg á næstu vikum og þar megi finna hin út­gefnu lög ó­mægad ég elska þig og Fjár­hags­legt öryggi í nýjum búningi. „Þau eru búin að fá að þroskast og dafna síðan þau komu út,“ segir hún.

Lögin samin í kring um texta

Þegar Vísir ræddi við Ey­dísi og Iðunni í dag voru þær enn að átta sig á sigri gær­kvöldsins. „Þetta er eigin­lega alveg klikkað. Ég vaknaði í dag og hugsaði bara jæja hvað á maður nú að gera,“ sagði Iðunn og Ey­dís tók undir: „Þetta var svo mikil keyrsla í gær. Ég vaknaði og horfði á Da Vinci Code og er enn að reyna að melta þetta allt og átta mig á þessu.“

Hljóm­sveitin vann ekki að­eins aðal­verð­laun Músík­til­rauna í gær heldur var hún einnig verð­launuð fyrir bestu texta­gerðina. Leggiði mikið upp úr texta­smíði?

„Já, al­gjör­lega. Við yfir­leitt byrjum á textanum og vinnum svo lögin út frá honum,“ segir Iðunn.

„Meira að segja ef það er ein­hver smá hljóma­gangur á undan textanum þá er samt alltaf ein­hver hug­mynd um hvað textinn á að snúast. Þetta er voða­lega sam­tvinnað hjá okkur,“ bætir Ey­dís við.

Hér má sjá keppni gærkvöldsins í heild sinni. Atriði Ólafs Kram hefst á mínútu 11:40.

Ólafi líkt við Grýlurnar og Risaeðluna

Sjálfar eiga þær erfitt með að setja tón­list Ólafs Kram undir hatt ein­hverrar einnar tón­listar­stefnu. „Okkur hefur verið líkt við Grýlurnar og Risa­eðluna og fleiri en við erum ekki bara í pönkinu… við getum verið dí­sætar inn á milli,“ segir Iðunn.

„Já, hvert lag er með sitt kon­sept og síðan er samið í kring um það. Síðan myndar þetta allt saman stærri heild sem fellur kannski undir ein­hverja tón­listar­stefnu eða er bara dá­lítið bland af öllu,“ segir Ey­dís.

Og það er vonandi bjart fram undan hjá Ólafi. Sumarið er komið og gert er ráð fyrir að öllum tak­mörkunum á sam­komum verði af­létt eftir mánuð. Sam­hliða útgáfu nýrrar plötu gæti Ólafur Kram því vel hugsað sér kröftugt tón­leika­hald en hljóm­sveitin hefur þegar verið bókuð á nokkra við­burði og kemur fram á tón­listar­há­tíðinni Há­tíðni sem fer fram á Borð­eyri í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×