Gul veðurviðvörun er nú í gildi á Suðurlandi, við Faxaflóa og á miðhálendinu. Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að framan af degi hafi verið lítið um verkefni hjá björgunarsveitum þar sem lögregla og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafi sinnt flestum beiðnum sem bárust Neyðarlínu.
Á sjötta tímanum hafi hins vegar bætt í veðrið á höfuðborgarsvæðinu og útköllum fjölgað.
„Stór hluti verkefnanna snýr að trampólínum og garðhúsgögnum, því er mikilvægt að fólk hugi að lausamunum í sínu nærumhverfi og komi þeim í skjól,“ segir í tilkynningunni.
Viðvörunin við Faxaflóa og á Suðurlandi gilda til klukkan fimm í fyrramálið en til klukkan átta á hálendinu.
Lögreglan á Suðurnesjum sagði Vísi fyrr í kvöld að hún hefði farið í nokkur minniháttar útköll vegna fjúkandi trampólína og þakplatna.