KA/Þór og ÍBV mættust í oddaleik um sæti í úrslitum Olís-deildar kvenna. Einvígi liðanna hefur verið frábært og var það áfram í dag en framlengja þurfti leikinn til að knýja fram sigurvegara. Fór það svo að KA/Þór vann með eins marks mun, 28-27.
Það að lýsa leik dagsins sem háspennuleik nær ekki alveg utan um spennuna sem ríkti á Akureyri í dag. Það var allt undir og í raun ósanngjarnt að annað liðið hafi þurft að tapa.
Jafnt var á öllum tölum í upphafi leiks og í raun allt fram að lokum fyrri hálfleiks en þá náðu heimakonur upp smá forskoti og leiddu með tveimur mörkum í hálfleik, staðan þá 12-10. Sú forysta var orðin að þremur mörkum eftir aðeins sjö mínútna kafla í síðari hálfleik
Var það forysta sem KA/Þór hélt framan af síðari hálfleik og virtist sem þær ætluðu ekki að láta forystuna af hendi. Tvö mörk í röð ásamt markvörslu frá Mörtu þegar tíu mínútur lifðu leiks sáu hins vegar til þess að staðan var allt í einu orðin 19-19.
Síðustu tíu mínútur leiksins voru efni í ágætis spennumynd en KA/Þór jafnaði alltaf metin eftir að ÍBV komst yfir. Það snerist svo við þegar þrjár mínútur lifðu leiks og allt í einu var KA/Þór í bílstjórasætinu en alltaf jöfnuðu gestirnir.
Staðan 25-25 undir lok leiks þegar skot Ásdísar Guðmundsdóttur rataði ekki í netið og Ásta Björt átti svo skot í slánna úr aukakasti fyrir ÍBV er tíminn var liðinn. Staðan enn 25-25 og því þurfti að framlengja.
Framlengingin var engu minna spennandi þar reyndust heimakonur örlítið sterkari aðilinn. Rakel Sara Elvarsdóttir skoraði síðasta mark leiksins og tryggði KA/Þór 28-27 sigur og þar með sæti í úrslitum.
Af hverju vann KA/Þór?
Ég einfaldlega get ekki sagt til um það. Það er í raun ósanngjarnt að annað liðið hafi þurft að fara í sumarfrí í kvöld. Frábær leikur í alla staði.
Hverjar stóðu upp úr?
Rakel Sara Elvarsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir voru frábærar í liði KA/Þór á meðan Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir dró vagninn í liði íBV. Þá var Elísa Elíasdóttir einnig öflug í liði gestanna.
Hvað næst?
KA/Þór fer í úrslit Olís-deildar kvenna og mætir þar ógnarsterku liði Vals á meðan ÍBV er komið í sumarfrí.
Andri Snær: Mikið rosalega er ég stoltur af mínu liði
„Tilfinningin er bara virkilega góð,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs eftir sigur liðsins í dag. „Þeir verða ekki mikið jafnari leikirnir en þetta, að vinna með einu í framlengingu er rosalega góð tilfinning of þetta var sætur sigur.“
Þrátt fyrir að KA/Þór hafi endað sem deildarmeistarar segist Andri aldrei hafa gert ráð fyrir því að fara auðveldlega í gegnum þetta einvígi.
„Þetta var ótrúlegt einvígi. ÍBV er með frábært lið og þetta voru bara tvö jöfn lið að mætast. Þetta hefði alveg getað farið á hinn veginn.“
„Mér fannst við vera með frumkvæðið mera og minna og það var hrikalega sterkt að ná að klára þetta.“
KA/Þór var spáð fimmta sæti í deildinni í haust. Þær tóku ekki mikið mark á þeirri spá og tryggðu sér deildarmeistaratitilinn á dögunum og eru nú komnar í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn.
„Við erum búnar að vinna mjög mikið í okkar málum. Þessi sigur var ótrúlega góður fyrir liðið. Það var fullt hús og brjáluð stemning sem gaf okkur mikið sjálfstraust.“
„Ég get ekki hrósað stelpunum nógu mikið. Þetta eru ótrúlega flottir karakterar og ég er virkilega stoltur af liðinu. Nú erum við komnar í úrslit og nú viljum við bara meira.“
KA/Þór mætir Valskonum í úrslitaeinvíginu og Andri segist vera spenntur fyrir þeirri rimmu.
„Mér lýst bara vel á það að mæta Val. Þær eru með frábært lið og ég er mjög spenntur að mæta þeim. Gústi er búinn að gera frábæra hluti með þær og þær unnu Fram sannfærandi þannig að þær mæta fullar sjálfstrausts.“
„Ég vil líka taka það sérstaklega fram að þessi leikur hérna í dag er auðvitað frábær auglýsing fyrir kvennahandboltann. Það er fullt hús og full flugvél af Eyjafólki sem kemur alla leið á Akureyri til að skapa þessa stemningu og taka þátt í þessu.“
„Siggi Braga er að gera frábæra hluti með ÍBV og ég hrósa þeim fyrir góða baráttu, en mikið rosalega er ég stoltur af mínu liði.“
Siggi Braga: Við breyttum leiknum
„Þetta er ömurleg tilfinning og ég er hálf tómur,“ sagði Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV eftir leikinn í dag.
„En ég er auðvitað mjög stoltur af stelpunum og sem handboltaáhugamaður og sem einhver sem er að vinna í kvennasportinu þá finnst mér þetta frábært. Við rífum þetta hratt upp ef við höldum þessum standard áfram með áhorfendum og fjöri.“
Sigurður hélt áfram að hrósa einvíginu í heild, og tók undir með kollega sínum um að þetta væri frábær auglýsing fyrir kvennahandboltann.
„Við breyttum leiknum, eigum við ekki að segja það? Þetta var algjörlega geggjað og það voru allir að leggja sig fram. Þetta var heiðarlegt og skemmtilegt ólíkt okkur Vestmannaeyingum,“ sagði Sigurður léttur.
Sigurður segir að einvígið hefði getað fallið hvorum megin sem er.
„Þetta eru hnífjöfn lið, við verðum að vera sanngjörn í því. Þetta var hnífjafnt og bara hrós til þeirra í Eyjum að vinna með þremur með bakið upp við vegg. Það er það sama hjá okkur núna, að þurfa að koma norður og fara í framlengingu. Þetta var bara svolítið stöngin út.“
Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.