Innlent

Rok og rigning á Suð­vestur­horninu í dag

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Búast má við miklu roki á Suðvesturhorninu í dag og einhverri rigningu.
Búast má við miklu roki á Suðvesturhorninu í dag og einhverri rigningu. Vísir/Vilhelm

Eftir margra vikna veðurblíðu stefnir lægð yfir landið og útlit er fyrir nokkurn lægðagang næstu daga. Lægðin sem má vænta mun byrja göngu sína yfir landið á Suðvesturhorni landsins. Nokkur vindur mun fylgja og gular veðurviðvaranir taka gildi nú upp úr hádegi á Suðurlandi, Faxaflóa og Miðhálendinu.

Búast má við vind allt að 20 m/s á þessum svæðum og geta aðstæður verið nokkur varhugaverðar fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind, líkt og húsbílar eða hjólhýsi. Þá má reikna með hviðum allt að 30 til 35 m/s á Kjalarnesi og eins undir Hafnarfjalli frá klukkan 14 í dag.

Vindurinn mun ná hámarki nú síðdegis og ekki er hægt að búast við að fari að lægja fyrr en eftir miðnætti. Einhver rigning mun fylgja rokinu og er því von á að eitthvað blotni í gróðri og dragi úr eldhættu.

Hættustig almannavarna vegna hættu á gróðureldum á höfuðborgarsvæðinu norður að Tröllaskaga og í Austur Skaftafellssýslu er þó enn í gildi. Hægt er að skoða veðurspár betur á vef Veðurstofu Íslands. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×