Innlent

Þingpallar opnaðir og nefndir mega hittast á ný

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Grímuskylda á Alþingi telst nú tilmæli en ekki skylda.
Grímuskylda á Alþingi telst nú tilmæli en ekki skylda. vísir/Vilhelm

Þingpallar Alþingis voru opnaðir almenningi á ný í dag eftir að hafa verið lokaðir í rúmt ár. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði við upphaf þingfundar að þetta væri hægt í kjölfar almennra tilslakana í samfélaginu.

Fyrst um sinn verður þó einungis hægt að taka á móti tíu manns í einu á pöllunum og verða allir að nota grímur. Þingpallarnir hafa verið lokaðir frá 12. mars á síðasta ári og á þeim tíma hafa gestir ekki mátt koma í Alþingishúsið vegna kórónuveirufaraldursins.

Í gær greindi Steingrímur einnig frá tilslökunum á grímunotkun sem er nú ekki lengur skylda heldur tilmæli í Alþingishúsinu.

Þá mega nefndir Alþingis halda staðfundi á ný og sleppa fjarfundarbúnaði auk þess sem létt verður á takmörkunum varðandi gestakomur.

Að lokum er gert ráð fyrir að frá 15. júní geti þátttaka þingmanna í alþjóðastarfi farið fram með hefðbundnum hætti, að meðtöldum ferðalögum, eftir því sem hefðbundið funda- og ráðstefnuhald hefst á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×