„Ég hef sagt þetta áður en við verðum að yfirgefa þennan alþjóðasinnaða Eurovision-farsa,“ segir Farage í Facebook-færslu sem birtist á opinberri síðu hans fyrr í dag.
Með færslunni fylgir mynd af stigatöflunni frá úrslitakvöldinu þegar langt var liðið á stigagjöfina. Eins og áður sagði fékk Bretland engin stig, hvorki frá dómnefndum þátttökulanda né í gegn um símakosningu, og hafnaði því í 26. og neðsta sæti á úrslitakvöldinu. Framlag Bretlands var lagið Embers með söngvaranum James Newman, sem virtist taka tapinu ágætlega, þrátt fyrir allt.
Eins og áður sagði hefur Farage verið áberandi talsmaður fyrir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Hann var sérlega áberandi árið 2016 þegar Bretar gengu til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, og barðist ötullega fyrir málstaðnum með ýmsum leiðum. Eftir að hafa náð fram vilja sínum, að fá Bretland út úr ESB, virðist hann nú vilja sjá landið sitt hverfa frá þátttöku í Eurovision.