Borgarleikhúsið auglýsti prufurnar í síðustu viku og hefur nú lokað fyrir skráningar í þær. Samkvæmt upplýsingum frá leikhúsinu sóttu fleiri stelpur en strákar um hlutverkin en kyn barnanna hefur ekki áhrif á ráðningu í hlutverkin. Þannig er ekki víst að strákur verði ráðinn til að leika Emil og stelpa Ídu.
Brynhildur Guðjónsdóttir borgarleikhússtjóri segir að verkið verði frumsýnt þann 26. nóvember á Stóra sviðinu. Áætlað er að búið verði að velja í hlutverk systkinanna í byrjun júní en fram undan er nokkuð langt prufuferli.

Það hefst á miðvikudaginn eftir tvo daga og mun fyrsta umferð prufanna taka átta daga. Þar þurfa börnin meðal annars að syngja lag og taka þátt í ýmsum leiklistarleikjum. Æfingar á leikritinu eiga síðan að hefjast snemma í haust.
Þórunn Arna Kristjánsdóttir, leikstjóri sýningarinnar, segist finna fyrir spennu í loftinu fyrir prufunum. „Það að Borgarleikhúsið sé að fara að fyllast af hæfileikaríkum börnum næstu vikurnar passar verkefninu sérstaklega vel. Það er gleðilegt að finna þennan mikla áhuga fyrir sýningunni og ég er ekki í nokkrum vafa um það að Emil og Ída í Kattholti munu finnast í þessum flotta barnahópi.“