Erlent

Tilfellum fækkar á Indlandi en fjöldi látinna enn hár

Samúel Karl Ólason skrifar
Í heildina hafa rúmlega 270 þúsund manns dáið vegna Covid-19 á Indlandi, svo vitað sé, og tæplega 25 milljónir hafa smitast.
Í heildina hafa rúmlega 270 þúsund manns dáið vegna Covid-19 á Indlandi, svo vitað sé, og tæplega 25 milljónir hafa smitast. AP/Anupam Nath

Yfirvöld á Indlandi skráðu rúmlega fjögur þúsund dauðsföll vegna Covid-19 í morgun og höfðu 311.170 greinst smitaðir á undanförnum degi. Þetta er þriðji dagurinn í röð sem dauðsföllum fækkar samkvæmt opinberum tölum og fjöldi nýsmitaðra hefur ekki verið lægri í rúmar þrjár vikur.

Í heildina hafa rúmlega 270 þúsund manns dáið vegna Covid-19 á Indlandi, svo vitað sé, og tæplega 25 milljónir hafa smitast. Á síðastliðinni viku hefur smituðum fjölgað um rúmar tvær milljónir og dauðsföllum um nærri því 28 þúsund.

Sérfræðingar segja tölurnar líklegast vera mun hærri í rauninni.

Reuters fréttaveitan segir að tilfellum hafi farið fækkandi víða á Indlandi samhliða hertum sóttvarnaraðgerðum. Þeim hafi þó fjölgað á nokkrum strjálbýlum svæðum og vegna þess hafi Narendra Modi, forsætisráðherra, kallað eftir því í gær að aukin áhersla yrði lögð á þau svæði.

Í frétt Times of India segir að öndunarvélar víðsvegar um landið séu ekki notaðar vegna skorts á þjálfun og nauðsynlegum varahlutum. Þá hafi embættismenn sagt öndunarvélar í boði en hvergi sé pláss fyrir þær.

Læknar hafi þar að auki sagst hræddir við að nota öndunarvélar af ótta við að þær bili og ógni þannig lífi sjúklinga.

Rannsókn miðilsins leiddi í ljóst að einung 83 af 320 öndunarvélum sem bárust til þriggja sjúkrahúsa í Punjab væru í notkun. Í öðru héraði sé nærri því helmingur 109 öndunarvéla ekki í notkun og tuttugu prósent í öðru.

Í Rajssthan eru einungis 500 af 1.900 öndunarvélum í notkun. Haft er eftir heilbrigðisráðherra héraðsins að læknar óttist bilanir. Um þrjú hundruð öndunarvélanna hafi bilað í notkun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×