Umfjöllun og viðtöl: Fylkir - KR 1-1 | Vítaklúður Arnórs Borg dýrkeypt Valur Páll Eiríksson skrifar 12. maí 2021 21:05 Vísir/Vilhelm Fylkir og KR skildu jöfn 1-1 í þriðju umferð Pepsi Max-deild karla í Árbæ í kvöld. Fylkismenn voru nær því að taka stigin þrjú. Leikur kvöldsins fór fjörlega af stað. Fylkismenn fengu aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi KR strax í byrjun. Dagur Dan Þórhallsson gaf boltann á Arnór Borg Guðjohnsen sem var einn á auðum sjó á fjærstönginni. Arnór kom boltanum fyrir markið í nafna sinn Arnór Svein Aðalsteinsson, varnarmann KR, sem setti boltann í eigið net af markteig. KR fékk aukaspyrnu á svipuðum stað hinu megin á vellinum skömmu síðar. Í það skipti var Grétar Snær Gunnarsson, félagi Arnórs Sveins í miðverði KR, aleinn á fjærstönginni hvaðan hann lagði boltann upp í þaknetið af stuttu færi. Staðan var 1-1 eftir aðeins sex mínútna leik. Leikurinn stóð ekki alveg undir þeim góðu fyrirheitum sem mörkin gáfu. Fylkismenn voru öflugri aðilinn framan af fyrri hálfleik en KR-ingar unnu sig betur inn í leikinn eftir því sem á leið hálfleikinn. Færin létu þó á sér standa og 1-1 stóð í hléi með tveimur mörkum úr föstum leikatriðum. Fylkismenn hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti þar sem Unnar Steinn Ingvarsson slapp inn fyrir vörn KR eftir nokkurra sekúndna leik. Kennie Chopart fór aftan í hann og vítaspyrna dæmd. Beitir Ólafsson varði hins vegar spyrnu Arnórs Borg Guðjohnsen og staðan því enn jöfn. KR var öflugri aðilinn eftir þetta en gekk, sem fyrr, illa að skapa sér færi. Eftir þónokkrar vonlitlar tilraunir þeirra komust Fylkismenn aftur nálægt því að komast yfir þegar Jordan Brown slapp inn fyrir á 61. mínútu. Beitir varði en missti skot hans undir sig og þurfti hjálp frá Arnóri Sveini sem bjargaði á marklínu. Eftir þetta færi Fylkismanna var leikurinn í járnum. Marktilraunirnar voru nokkrar en góð sem engin ógnaði marki. Þórður Gunnar Hafþórsson, sem kom inn á sem varamaður hjá Fylki undir lok leiks, fékk færi í uppbótartíma þegar hann var einn á auðum sjó á teig KR-inga en var of lengi að athafna sig svo varnarmenn komust inn í. 1-1 jafntefli var niðurstaðan og fara Fylkismenn eflaust ósáttari heim þar sem þeir voru nær því að skora annað mark, en það gekk ekki. Af hverju lauk leiknum með jafntefli? Fylkismönnum tókst illa að nýta færin, enda var það KR-ingur sem skoraði þeirra eina mark í kvöld. Heimamenn voru sterkari aðilinn stóra kafla leiksins og fengu vítaspyrnu, auk tveggja annarra færa í seinni hálfleik til að taka stigin þrjú. Inn vildi boltinn ekki. Hverjir stóðu upp úr? Arnór Gauti Jónsson var öflugur á miðju Fylkismanna, stýrði sínum mönnum úr dýpinu og var iðinn við að brjóta sóknir KR-inga á bak aftur. Fyrir aftan hann var Orri Sveinn líka frábær og Ásgeir Eyþórsson einnig sterkur. Dagur Dan Þórhallsson var sprækastur fram á við í liði Fylkis. KR megin var fátt um fína drætti. Kristinn Jónsson var manna sprækastur með reglulegum ferðum sínum upp vinstri kantinn og þá verður að hrósa Beiti Ólafssyni fyrir að verja vítaspyrnu. Hvað gekk illa? Arnór Borg Guðjohnsen var að vonum ekki sáttur eftir leik þar sem hann klúðraði vítaspyrnuni snemma í síðari hálfleik. Hjá KR gekk bölvanlega að tengja saman sendingar á stórum köflum þar sem Pálmi Rafn Pálmason, Atli Sigurjónsson og Ægir Jarl Jónasson hafa átt betri dag. Þá kom fátt út úr Stefáni Árna Geirssyni sem var skipt snemma af velli. Hvað er framundan? Fylkir heimsækir Leikni Reykjavík í Breiðholtið á sunnudagskvöld klukkan 19:15 og má sjá þann leik á vef Stöðvar 2. Á mánudagskvöldið er stórleikur fjórðu umferðar þar sem KR tekur á móti Val í leik Íslandsmeistara síðustu tveggja ára. Sá leikur hefst 19:15 á mánudagskvöldið og er í beinni á Stöð 2 Sport. Atli Sveinn: Eigum að vinna samkvæmt xG Atli Sveinn Þórarinsson segist ekki geta gefið Arnóri ráð um vítaspyrnur, hann var svo slök skytta sjálfur.ljósmynd Hulda Margrét „Það eru blendnar tilfinningar. Okkur fannst við spila að miklu leyti mjög vel og hefðum viljað þrjú stig en það gekk ekki. Að sama skapi þá er líka gott að halda KR-ingunum bara í einu marki og við virðum þetta stig.“ sagði Atli Sveinn Þórarinsson, þjálfari Fylkis eftir leik. Aðspurður um hvort að Fylkir hafi átt skilið að taka öll stigin þrjú segir Atli: „Já, eigum við ekki að segja það. Vítaspyrnan hlýtur að telja mikið í xG, samkvæmt xG eigum við skilinn sigurinn.“ Um það hvort að Atli hafi einhver sérstök skilaboð til Arnórs Borg vegna klúðrsins segir hann: „Nei, nei. Maður bara klikkar á sumum, ég var nú aldrei merkileg vítaskytta svo ég er ekki maðurinn sem á að ráðleggja með það. Hann er góð skytta, með góðan fór en maður klikkar á sumum og skorar úr flestum. Þetta er hluti af þessu.“ Rúnar: Sáttur við stigið Rúnar Kristinsson segist sáttur með eitt stig gegn sterku Fylkisliði.Vilhelm „Ég er sáttur við stigið. Það var mikil barátta og tvö góð fótboltalið sem vilja spila fótbolta. Það er erfitt að eiga við Fylkismennina, þeir eru ungir, léttir, liprir og fljótir, og spila góðan fótbolta úr öftustu línu. Það vantaði kannski smá bit hjá þeim frammi, eins og hjá okkur.“ „Það vantaði gæðin á síðasta þriðjungi, eins og er oft í íslenskum fótbolta. Bæði mörkin koma upp úr föstum leikatriðum og það koma engin dauðafæri eftir flott spil gegnum varnir andstæðinganna.“ Rúnar var þá spurður hvort að lið eins og KR ætti ekki að gera kröfu á þrjú stig gegn Fylki. „Nei, alls ekki. Við höfum unnið hérna ár eftir ár, þegar ég hef verið hérna. En Fylkisliðið er töluvert breytt, yngra og ferskara með nýjar hugmyndir frá nýjum þjálfurum. Þeir hafa haldið áfram að vinna með flotta hluti og það er gaman að sjá þá spila út frá markmanni og gera það ofboðslega vel. Það var erfitt að eiga við þá.“ sagði Rúnar. Pepsi Max-deild karla KR Fylkir
Fylkir og KR skildu jöfn 1-1 í þriðju umferð Pepsi Max-deild karla í Árbæ í kvöld. Fylkismenn voru nær því að taka stigin þrjú. Leikur kvöldsins fór fjörlega af stað. Fylkismenn fengu aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi KR strax í byrjun. Dagur Dan Þórhallsson gaf boltann á Arnór Borg Guðjohnsen sem var einn á auðum sjó á fjærstönginni. Arnór kom boltanum fyrir markið í nafna sinn Arnór Svein Aðalsteinsson, varnarmann KR, sem setti boltann í eigið net af markteig. KR fékk aukaspyrnu á svipuðum stað hinu megin á vellinum skömmu síðar. Í það skipti var Grétar Snær Gunnarsson, félagi Arnórs Sveins í miðverði KR, aleinn á fjærstönginni hvaðan hann lagði boltann upp í þaknetið af stuttu færi. Staðan var 1-1 eftir aðeins sex mínútna leik. Leikurinn stóð ekki alveg undir þeim góðu fyrirheitum sem mörkin gáfu. Fylkismenn voru öflugri aðilinn framan af fyrri hálfleik en KR-ingar unnu sig betur inn í leikinn eftir því sem á leið hálfleikinn. Færin létu þó á sér standa og 1-1 stóð í hléi með tveimur mörkum úr föstum leikatriðum. Fylkismenn hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti þar sem Unnar Steinn Ingvarsson slapp inn fyrir vörn KR eftir nokkurra sekúndna leik. Kennie Chopart fór aftan í hann og vítaspyrna dæmd. Beitir Ólafsson varði hins vegar spyrnu Arnórs Borg Guðjohnsen og staðan því enn jöfn. KR var öflugri aðilinn eftir þetta en gekk, sem fyrr, illa að skapa sér færi. Eftir þónokkrar vonlitlar tilraunir þeirra komust Fylkismenn aftur nálægt því að komast yfir þegar Jordan Brown slapp inn fyrir á 61. mínútu. Beitir varði en missti skot hans undir sig og þurfti hjálp frá Arnóri Sveini sem bjargaði á marklínu. Eftir þetta færi Fylkismanna var leikurinn í járnum. Marktilraunirnar voru nokkrar en góð sem engin ógnaði marki. Þórður Gunnar Hafþórsson, sem kom inn á sem varamaður hjá Fylki undir lok leiks, fékk færi í uppbótartíma þegar hann var einn á auðum sjó á teig KR-inga en var of lengi að athafna sig svo varnarmenn komust inn í. 1-1 jafntefli var niðurstaðan og fara Fylkismenn eflaust ósáttari heim þar sem þeir voru nær því að skora annað mark, en það gekk ekki. Af hverju lauk leiknum með jafntefli? Fylkismönnum tókst illa að nýta færin, enda var það KR-ingur sem skoraði þeirra eina mark í kvöld. Heimamenn voru sterkari aðilinn stóra kafla leiksins og fengu vítaspyrnu, auk tveggja annarra færa í seinni hálfleik til að taka stigin þrjú. Inn vildi boltinn ekki. Hverjir stóðu upp úr? Arnór Gauti Jónsson var öflugur á miðju Fylkismanna, stýrði sínum mönnum úr dýpinu og var iðinn við að brjóta sóknir KR-inga á bak aftur. Fyrir aftan hann var Orri Sveinn líka frábær og Ásgeir Eyþórsson einnig sterkur. Dagur Dan Þórhallsson var sprækastur fram á við í liði Fylkis. KR megin var fátt um fína drætti. Kristinn Jónsson var manna sprækastur með reglulegum ferðum sínum upp vinstri kantinn og þá verður að hrósa Beiti Ólafssyni fyrir að verja vítaspyrnu. Hvað gekk illa? Arnór Borg Guðjohnsen var að vonum ekki sáttur eftir leik þar sem hann klúðraði vítaspyrnuni snemma í síðari hálfleik. Hjá KR gekk bölvanlega að tengja saman sendingar á stórum köflum þar sem Pálmi Rafn Pálmason, Atli Sigurjónsson og Ægir Jarl Jónasson hafa átt betri dag. Þá kom fátt út úr Stefáni Árna Geirssyni sem var skipt snemma af velli. Hvað er framundan? Fylkir heimsækir Leikni Reykjavík í Breiðholtið á sunnudagskvöld klukkan 19:15 og má sjá þann leik á vef Stöðvar 2. Á mánudagskvöldið er stórleikur fjórðu umferðar þar sem KR tekur á móti Val í leik Íslandsmeistara síðustu tveggja ára. Sá leikur hefst 19:15 á mánudagskvöldið og er í beinni á Stöð 2 Sport. Atli Sveinn: Eigum að vinna samkvæmt xG Atli Sveinn Þórarinsson segist ekki geta gefið Arnóri ráð um vítaspyrnur, hann var svo slök skytta sjálfur.ljósmynd Hulda Margrét „Það eru blendnar tilfinningar. Okkur fannst við spila að miklu leyti mjög vel og hefðum viljað þrjú stig en það gekk ekki. Að sama skapi þá er líka gott að halda KR-ingunum bara í einu marki og við virðum þetta stig.“ sagði Atli Sveinn Þórarinsson, þjálfari Fylkis eftir leik. Aðspurður um hvort að Fylkir hafi átt skilið að taka öll stigin þrjú segir Atli: „Já, eigum við ekki að segja það. Vítaspyrnan hlýtur að telja mikið í xG, samkvæmt xG eigum við skilinn sigurinn.“ Um það hvort að Atli hafi einhver sérstök skilaboð til Arnórs Borg vegna klúðrsins segir hann: „Nei, nei. Maður bara klikkar á sumum, ég var nú aldrei merkileg vítaskytta svo ég er ekki maðurinn sem á að ráðleggja með það. Hann er góð skytta, með góðan fór en maður klikkar á sumum og skorar úr flestum. Þetta er hluti af þessu.“ Rúnar: Sáttur við stigið Rúnar Kristinsson segist sáttur með eitt stig gegn sterku Fylkisliði.Vilhelm „Ég er sáttur við stigið. Það var mikil barátta og tvö góð fótboltalið sem vilja spila fótbolta. Það er erfitt að eiga við Fylkismennina, þeir eru ungir, léttir, liprir og fljótir, og spila góðan fótbolta úr öftustu línu. Það vantaði kannski smá bit hjá þeim frammi, eins og hjá okkur.“ „Það vantaði gæðin á síðasta þriðjungi, eins og er oft í íslenskum fótbolta. Bæði mörkin koma upp úr föstum leikatriðum og það koma engin dauðafæri eftir flott spil gegnum varnir andstæðinganna.“ Rúnar var þá spurður hvort að lið eins og KR ætti ekki að gera kröfu á þrjú stig gegn Fylki. „Nei, alls ekki. Við höfum unnið hérna ár eftir ár, þegar ég hef verið hérna. En Fylkisliðið er töluvert breytt, yngra og ferskara með nýjar hugmyndir frá nýjum þjálfurum. Þeir hafa haldið áfram að vinna með flotta hluti og það er gaman að sjá þá spila út frá markmanni og gera það ofboðslega vel. Það var erfitt að eiga við þá.“ sagði Rúnar.
Uppgjörið: Víkingur - Borac 2-0 | Víkingur færist skrefi nær útsláttarkeppninni með góðum sigri Fótbolti
Uppgjörið: Víkingur - Borac 2-0 | Víkingur færist skrefi nær útsláttarkeppninni með góðum sigri Fótbolti