Erlent

Minnast þess að á­tján ár eru liðin frá fæðingu Madelein­e Mc­Cann

Atli Ísleifsson skrifar
Kate og Gerry McCann halda á mynd af dóttur sinni, Madeleine, árið 2012.
Kate og Gerry McCann halda á mynd af dóttur sinni, Madeleine, árið 2012. EPA/Facundo Arrizabalaga

Foreldrar hinnar bresku Madeleine McCann minnast þess í dag að átján eru liðin frá fæðingu hennar og segjast þau enn halda í „smá“ von um að hún muni finnast á lífi. Madeleine hvarf úr hótelíbúð fjölskyldunnar í Praia da Luz í Portúgal í maí 2007.

Málið vakti gríðarlega athygli á sínum tíma og stendur rannsókn á hvarfinu enn yfir, en foreldrar Madeleine voru á veitingastað á þeim tíma er Madeleine litla hvarf, þá tæplega fjögurra ára að aldri.

Erlendir fjölmiðlar segja McCann-fjölskylduna ætla að minnast afmælis Madeleine með fámennri veislu heima, en muni annars ekki tjá sig. Greinir AFP frá því að foreldrarnir vilji með þessu vernda systkini Madeleine.

Kate og Gerry McCann sögðu á heimasíðu sinni fyrr í mánuðinum að þetta ár sé „sérstaklega sárt“ þar sem þau hefðu nú fagnað átján ára afmæli dóttur sinnar.

Rannsókn beinist að þýskum barnaníðingi

Rannsóknin á hvarfi Madeleine beinist nú sérstaklega að 43 ára þýskum manni, Christian B. Saksóknarar í Þýskalandi greindu frá því í júní á síðasta ári að þeir teji manninn hafa rænt og myrt stúlkuna.

Christian B. hefur áður verið dæmdur fyrir barnaníð og nauðgun. Segja þýskir saksóknarar hafa sannanir fyrir því að Madeleine sé látin, en breska lögreglan flokkar málið hins vegar enn sem mannshvarf.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×