Fótbolti

Oliver greindist með blóðtappa í öxl og verður frá í sex mánuði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Oliver Stefánsson í leik með íslenska U-17 ára landsliðinu á EM 2019.
Oliver Stefánsson í leik með íslenska U-17 ára landsliðinu á EM 2019. getty/Piaras Ó Mídheach

Oliver Stefánsson, leikmaður Norrköping, spilar ekki fótbolta næsta hálfa árið vegna blóðtappa.

Norrköping sigraði AIK, 2-0, í sænsku úrvalsdeildinni í gær. Eftir annað mark liðsins, sem Samuel Adegbenro skoraði, fögnuðu þeir, Ari Freyr Skúlason og Ísak Bergmann Jóhannesson með því að halda á treyju Olivers.

Eftir leikinn var greint frá því að Oliver væri með blóðtappa í öxl, nærri hálsi, og samherjar hans hefðu því ákveðið að sýna honum stuðning.

Meinið kom í ljós á æfingu fyrir nokkrum dögum eins og Oliver lýsti í viðtali við NT.

„Við vissum ekki að þetta væri mjög alvarlegt en ég þurfti svo að vera á spítala í fimmtán klukkutíma. Ég held að ástæðan sé að ég styrkti efri hluta líkamans mikið, vöðvarnir hafa stækkað en æðarnar sem flytja blóðið hafa ekki fylgt eftir,“ sagði Oliver.

„Eins og ég skil þetta flæðir blóðið ekki til baka. Liðslæknirinn Bengt [Janzon] hefur verið hérna í mörg, mörg ár hefur ekki séð þetta oft. Ég hef fengið lyf og á að taka því rólega.“

Oliver bætti því við að hann yrði líklega frá keppni í sex mánuði. Skagamaðurinn hefur verið afar óheppinn með meiðsli og gekkst nýverið undir aðgerð á mjöðm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×