Körfubolti

Háskólatreyja Jordans seldist á tæplega tvö hundruð milljónir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heppinn safnari á nú treyjuna sem Michael Jordan klæddist á öðru tímabili sínu með North Carolina háskólanum.
Heppinn safnari á nú treyjuna sem Michael Jordan klæddist á öðru tímabili sínu með North Carolina háskólanum. getty/Sporting News

Treyja frá háskólaárum Michaels Jordan seldist um helgina á 1,38 milljónir Bandaríkjadala sem samsvarar tæplega 172 milljónum íslenskra króna.

Jordan klæddist umræddri treyju á öðru tímabili sínu í North Carolina háskólanum, veturinn 1982-83. Hann var valinn besti leikmaður bandaríska háskólaboltans það tímabil.

Þetta er það langmesta sem greitt hefur verið fyrir Jordan-treyju. Gamla metið var frá því í fyrra en þá seldist treyja frá þriðja tímabili hans með Chicago Bulls í NBA-deildinni á 343 þúsund Bandaríkjadali.

Jordan lék í þrjú ár með North Carolina. Hann varð háskólameistari með liðinu á fyrsta tímabili sínu með því, 1981-82. Jordan skoraði sigurkörfu North Carolina í úrslitaleiknum gegn Patrick Ewing og félögum í Georgetown.

Chicago Bulls valdi Jordan með þriðja valrétti í nýliðavali NBA 1984. Hann varð sex sinnum meistari með liðinu. Jordan er nú eigandi Charlotte Hornets.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×