Körfubolti

Yfirferð Gaupa: Haukar komnir með aðra hönd á 2. sætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukar fagna sigrinum á Keflavík.
Haukar fagna sigrinum á Keflavík. vísir/bára

Haukar fóru langt með að tryggja sér 2. sæti Domino's deildar kvenna í körfubolta með sigri á Keflavík, 67-63, í Ólafssal í gær. Guðjón Guðmundsson fór yfir næstsíðustu umferð deildarinnar.

Í lokaumferðinni á laugardaginn mæta Haukar botnliði KR á meðan Keflavík tekur á móti deildarmeisturum Vals. Til að ná 2. sætinu þurfa Keflvíkingar að vinna Valskonur og treysta á að KR-ingar sigri Hauka.

Alyesha Lovett skoraði 25 stig fyrir Hauka í leiknum í gær, tók tíu fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Sara Rún Hinriksdóttir var með sautján stig og fjórtán fráköst. Daniela Morillo skoraði 22 stig og tók tólf fráköst í liði Keflavíkur sem skoraði aðeins fjögur stig í 2. leikhluta.

Klippa: Yfirferð Gaupa: 20. umferð Domino's deildar kvenna

Breiðablik vann sinn þriðja leik í röð þegar liðið sigraði Skallagrím í Smáranum, 82-72.

Jessica Lorea skoraði 28 stig, tók sex fráköst og gaf sjö stoðsendingar fyrir Blika og Iva Georgieva skoraði nítján stig og tók átta fráköst. Isabella Ósk Sigurðardóttir skilaði þrettán stigum og fimmtán fráköstum. Með sigrinum komst Breiðablik upp fyrir Skallagrím í 5. sæti deildarinnar.

Keira Robinson skoraði tuttugu stig fyrir Borgnesinga, tók ellefu fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Þá rúllaði Fjölnir yfir KR, 105-67, í Dalhúsum. Fjölniskonur eru í 4. sæti deildarinnar og enda þar en KR-ingar á botninum og eru fallnir.

Allir tólf leikmenn Fjölnis á leikskýrslu skoruðu í gær. Lina Pikciuté var stigahæst með 22 stig og Ariel Hearn var með þrefalda tvennu; 21 stig, tíu fráköst og tíu stoðsendingar.

Annika Holopainen skoraði nítján stig fyrir KR sem hefur tapað sex leikjum í röð.

Umfjöllun Gaupa um leikina þrjá í gær má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×