Umfjöllun og viðtöl: Valur - Stjarnan 2-1 | Valskonur sluppu með skrekkinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valskonur fagna marki Ídu Marínar Hermannsdóttur.
Valskonur fagna marki Ídu Marínar Hermannsdóttur. vísir/vilhelm

Valur vann 2-1 sigur á Stjörnunni í fyrsta leik sínum í Pepsi Max-deild kvenna í kvöld. Ída Marín Hermannsdóttir og Anna Rakel Pétursdóttir skoruðu mörk Vals en Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir mark Stjörnunnar.

Gestirnir úr Garðabænum léku vel í kvöld og áttu í það minnsta eitt stig skilið. En þótt niðurstaðan hafi ekki verið góð gefur frammistaðan góð fyrirheit fyrir tímabilið.

Valskonur unnu en geta ekki verið sáttar með spilamennskuna sem var frekar taktlaus og ósannfærandi. Ef Blikar skutu upp tívolíbombu gegn Fylkiskonum í gær kveiktu Valskonur bara á stjörnuljósi gegn Stjörnukonum. En það dugði til.

Á 8. mínútu slapp Elín Metta Jensen í gegnum Stjörnuvörnina eftir slaka sendingu Sóleyjar Guðmundsdóttur, lék á Chante Santiford en hitti ekki markið.

Tíu mínútum síðar náði Valur forystunni. Anna Rakel tók hornspyrnu, Mist Edvardsdóttir skallaði boltann á Ídu Marín sem skoraði með skoti af stuttu færi.

Stjarnan vann sig alltaf betur og betur inn í leikinn og á 30. mínútu átti Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir skalla sem Sandra Sigurðardóttir þurfti að hafa sig alla við að verja.

Á 56. mínútu færði Sóley Val mark á silfurfati. Hún átti slæma sendingu út úr vörninni, beint á Önnu Rakel sem var fljót að hugsa og skoraði með hægri fótar skoti langt fyrir utan vítateig.

Stjarnan minnkaði muninn á 77. mínútu þegar Hildigunnur skoraði laglegt mark. Dóra María Lárusdóttir tapaði boltanum á slæmum stað, Hildigunnur lék skemmtilega á Málfríði Önnu Eiríksdóttir og skoraði með skoti undir Söndru.

Það sem eftir lifði leiks voru Stjörnukonur nálægt því að jafna. Sædís Rún Heiðarsdóttir komst í fínt færi en hitti boltann illa, Sandra varði frá Maríu Sól Jakobsdóttur úr dauðafæri og Stjarnan hefði svo líklega átt að fá vítaspyrnu í uppbótartíma þegar Anna María Baldursdóttir var toguð niður. En allt kom fyrir ekki, Valur slapp með skrekkinn og fagnaði 2-1 sigri.

Elín Metta Jensen átti fjölmargar marktilraunir gegn Stjörnunni en tókst ekki að skora.vísir/vilhelm

Af hverju vann Valur?

Sem fyrr sagði léku Valskonur ekki vel í kvöld en gerðu nóg til að hirða öll þrjú stigin. Þær vörðust lengst af vel og svo kom Sandra þeim tvisvar til bjargar.

Hverjar stóðu upp úr?

Anna Rakel lék vel í sínum fyrsta leik fyrir Val, átti hornspyrnuna sem fyrra markið kom upp úr og skoraði svo seinna markið. Mist og Málfríður stóðu vaktina vel í miðri vörn Vals. Hildigunnur fór reyndar illa með Málfríði í markinu en annars átti hún fínan leik. Þá varði Sandra vel frá Maríu Sól úr dauðafæri undir lokin.

Sædís Rún átti góðan leik í stöðu vinstri bakvarðar hjá Stjörnunni og er afar lofandi leikmaður. Þá munar miklu fyrir Stjörnuna að hafa fyrirliðann Önnu Maríu Baldursdóttur í vörninni en hún átti afbragðs leik í kvöld. Hildigunnur var róleg lengi framan af leik en gerði frábærlega í markinu sínu og var ógnandi það sem eftir lifði leiks. Úlfa Dís og Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir léku einnig vel.

Hvað gekk illa?

Sóley vill eflaust gleyma þessum leik sem fyrst. Hún gerði slæm mistök sem Elín Metta var nálægt því að refsa fyrir í fyrri hálfleik. Hún var ekki jafn heppin þegar Anna Rakel nýtti sér slaka sendingu hennar á 56. mínútu og skoraði.

Hvað gerist næst?

Á mánudaginn sækir Valur Þrótt heim og degi síðar fær Stjarnan nýliða Keflavíkur í heimsókn.

Pétur: Spiluðum ekki vel

Sandra Sigurðardóttir, markvörður Vals, teygir á Mist Edvarsdóttur sem meiddist undir lok leiks.vísir/vilhelm

Pétur Pétursson, þjálfari Vals, var sáttur með sigurinn gegn Stjörnunni en ekki margt annað.

„Ég er ánægður með að ná þremur stigum en við spiluðum ekki vel,“ sagði Pétur. „Mér fannst við ekki spila okkar leik hvað sendingar varðar. Þær voru slakar.“

Hann fann ekki margt jákvætt við leikinn fyrir utan það augljósa.

„Ég er ánægður með að vinna og skora tvö mörk. Það komu fínir kaflar en síðan voru of margir kaflar þar sem við spiluðum boltanum ekki nógu vel,“ sagði Pétur.

Mist Edvardsdóttir meiddist undir lok leiks og þurfti að yfirgefa völlinn.

„Ég held að það sé allt í lagi og þetta séu ekki alvarleg meiðsli,“ sagði Pétur.

Þjálfarinn fagnar því að hefja tímabilið með sigri.

„Það er alltaf erfitt að byrja mót og það skiptir alltaf miklu að vinna fyrsta leik,“ sagði Pétur að endingu.

Kristján: Vorum betra liðið

Anna María Baldursdóttir lék vel í vörn Stjörnunnar.vísir/vilhelm

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var sáttur með spilamennsku Stjörnunnar gegn Val þótt úrslitin hafi ekki verið honum að skapi.

„Við erum ánægðar með leikinn. Við vorum betra liðið heilt yfir, sérstaklega eftir að við lentum undir. Fram að því vorum við aðeins að gefa boltann frá okkur og skapa hættu en eftir það vorum við mun betra liðið. Við áttum allavega að taka stig,“ sagði Kristján eftir leikinn á Hlíðarenda.

Honum fannst grunnatriðin vera í lagi hjá sínu liði; sendingar og vinnusemi.

„Það var greinilegt að við gátum hlaupið meira en andstæðingurinn. Sendingarnar bötnuðu til muna í seinni hálfleik sem við þurftum að bæta. Og þá vorum við leikinn algjörlega í höndunum. En við gerðum ein stór mistök sem kosta mark en við bjuggum til færi til að vinna leikinn og áttum að fá víti undir lokin. Það er klárt,“ sagði Kristján og vísaði til atviksins þegar Anna María Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, var toguð niður í vítateig Vals í uppbótartíma.

Eins og Kristján nefndi gerði Stjarnan slæm mistök í öðru marki Vals. Liðið gerði einnig svipuð mistök, sem kostuðu reyndar ekki mark, í fyrri hálfleik.

En er þetta viðbúinn fórnarkostnaður við það að reyna að spila boltanum út úr vörninni?

„Það getur vel verið. Kannski erum við heldur ekki alveg komnar af stað. En þetta kemur fyrir þegar þú spilar út úr vörninni en við erum búnar að gera þetta nokkuð vel. Þetta voru bara smá mistök sem við vinnum úr,“ svaraði Kristján.

Hann segir að Stjörnukonur gangi beinar í baki frá leiknum þrátt fyrir tap.

„Við vorum betra liðið en stundum þarf það að lúta í lægra haldi. En við þurfum kannski að vinna leik þar sem við eigum minna skilið í staðinn til að vinna þessi stig upp. Ég er mjög jákvæður og ánægður fyrir hönd deildarinnar að þessi leikur spilaðist svona. Þetta eru skilaboð um að deildin eigi að vera í lagi,“ sagði Kristján að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira