Erlent

Biden vill bólusetja tólf til sautján ára sem allra fyrst

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Biden hafði áður boðað að daglegt líf yrði komið í fastar skorður 4. júlí.
Biden hafði áður boðað að daglegt líf yrði komið í fastar skorður 4. júlí. epa/Alex Edelman

Joe Biden Bandaríkjaforseti kynnti í gærkvöldi nýja áætlun sem miðar að því að búið verði að bólusetja 70 prósent allra fullorðinna Bandaríkjamanna fyrir þjóðhátíðardag landsins, fjórða júlí.

Þá vill forsetinn bjóða upp á bóluefni fyrir börn á aldrinum tólf til sautján ára svo fljótt sem auðið er. 

Til að þetta gangi eftir þarf að vera búið að bólusetja 160 milljónir manna áður en fjórði júlí rennur upp og segja sérfræðingar það vel mögulegt, enda er búið að bólusetja um 105 milljónir nú þegar. 

Eins og staðan er í dag eru um það bil milljón einstaklingar bólusettir daglega í landinu. 

Það hefur hinsvegar hægt verulega á straumnum í bólusetningu undanfarnar vikur og segir Biden því mikilvægt að fá þá sem efast um gildi bólusetninga til að slást í hópinn.

„Eftir tvo mánuði skulum við fagna sjálfstæði okkar sem þjóðar og sjálfstæði okkar frá þessari veiru. Við getum þetta. Við munum klára þetta,“ sagði forsetinn á mánudag.

Stjórnvöld vestanhafs hafa opnað nýja vefsíðu til að aðstoða fólk við að finna stað þar sem það getur fengið bólusetningu. Þá hefur ný símaþjónusta einnig verið tekin í notkun, þar sem fólk getur gefið upp póstnúmer og fengið upplýsingar.

Ef bandaríska matvæla- og lyfjastofnunin heimilar bólusetningar barna, verður hægt að nálgast þær hjá barnalæknum og í 15 þúsund lyfjaverslunum. 

Um 17 milljón Bandaríkjamenn eru á aldrinum tólf til fimmtán ára og hefur Anthony Fauci, yfirmaður bandarísku sóttvarnastofnunarinnar, sagt að líklega verði að bólusetja þann hóp áður en hægt verður að hverfa aftur til „eðlilegs lífs“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×