Erlent

Norsk kona dæmd fyrir að aðild að ISIS

Atli Ísleifsson skrifar
Dómari í málinu taldi konuna hafa breytt „með vitund og vilja“.
Dómari í málinu taldi konuna hafa breytt „með vitund og vilja“. Getty

Dómstóll í Noregi dæmdi í dag þrítuga, norska konu í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir aðild sína að hryðjuverkasamtökunum ISIS. Taldi dómari að konan hafi breytt „með vitund og vilja“.

NRK segir frá því að konan hafi ferðast til Sýrlands sumarið 2013 og gengið í hjónaband með málaliðanum Bastian Vasquez sem starfaði innan Nusra-hreyfingarinnar og síðar ISIS.

Konan og Vasquez eignuðust saman tvö börn á meðan hún dvaldi í heimshlutanum. Fulltrúar norskra yfirvalda sóttu konuna og fluttu til Noregs í janúar 2020 eftir að eitt barna hennar hafði veikst alvarlega. Konan var handtekin við komuna til Noregs.

Réttarhöld í máli konunnar hófust 1. mars síðastliðinn. Verjandi konunnar fór fram á sýknu, en saksóknari fór fram á fjögurra ára fangelsi vegna brota konunnar á hryðjuverkalögunum.

Hún hefur verið í gæsluvarðhaldi í 402 daga sem munu nú dragast frá dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×