Körfubolti

Vals­konur geta tryggt sér deildar­meistara­titilinn í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hallveig Jónsdóttir og félagar í Val verða deildarmeistarar með sigri í kvöld.
Hallveig Jónsdóttir og félagar í Val verða deildarmeistarar með sigri í kvöld. Vísir/Vilhelm

Valur getur orðið deildarmeistari í Domino´s deildinni í kvöld þegar Snæfellskonur koma í heimsókn á Hlíðarenda.

Valsliðið er með fjögurra stiga forystu á toppnum þegar aðeins tvær umferðir eru eftir.

Keflavíkurkonur geta enn náð Val að stigum svo framarlega sem Valsliðið vinni ekki leik sinn í kvöld því Keflavík og Valur mætast í lokaumferðinni.

Það eru miklar líkur á Valssigri en Valskonur hafa unnið fimm síðustu leiki sína í deildinni og alla níu heimaleiki sína á tímabilinu.

Snæfellskonur hafa bitið frá sér í síðustu tveimur leikjum en með því að vinna KR og Skallagrím þá tryggðu þær sér áframhaldandi sæti í deildinni.

Valskonur hafa unnið deildarmeistaratitilinn undanfarin tvö tímabil og eru ríkjandi Íslandsmeistarar frá vorinu 2019. Í fyrravetur var úrslitakeppninni frestað vegna kórónuveirunnar og enginn Íslandsmeistari krýndur.

Leikur Vals og Snæfells hefst klukkan 20.15 í Origo-höllinni að Hlíðarenda.

Það geta farið fleiri bikarar á loft hjá KKÍ í kvöld. Leikmenn Njarðvíkur í 1. deild kvenna geta líka tryggt sér deildarmeistaratitilinn í 1. deild kvenna í kvöld þegar þær fá Grindavík í heimsókn í Njarðtaks-gryfjuna klukkan 19.15.

Leikdagur - deildarmeistaratitill í boði! Miðasala á Stubb - ársmiðahafar sendið póst á teddi@valur.is fyrir kl. 15 með nafni, kt. símanúmeri og númeri áramiða.

Posted by Valur Körfubolti on Þriðjudagur, 4. maí 2021



Fleiri fréttir

Sjá meira


×