Súrefnisskortur er enn útbreiddur í landinu og öll sjúkrahús full. Þá anna bálstofur ekki eftirspurn. Margir sérfræðingar telja fjölda látinna raunar allt að fimm til tíu sinnum meiri en opinberar tölur gefa til kynna.
„Eina leiðin til að stoppa útbreiðslu kórónuveirunnar er algjört útgöngubann,“ sagði Rahul Gandhi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, á Twitter. Sagði hann aðgerðarleysi stjórnvalda hafa leitt til fjölda dauðsfalla.
Undir þetta tekur Anthony Fauci, yfirmaður bandarísku sóttvarnastofnunarinnar og ráðgjafi Bandaríkjaforseta. Hann hefur ráðlagt Indverjum að grípa til útgöngubanns á landsvísu og gera allt til að auka hraðann í bólusetningum til að koma böndum á útbreiðslu SARS-CoV-2.
„Ástandið á Indlandi er afar alvarlegt,“ sagði hann.
Útgöngubann er þegar í gildi í mörgum ríkjum og borgum, til dæmis Delí og Mumbai, en forsætisráðherrann Narendra Modi er sagður hafa veigrað sér við því að fyrirskipa harðar aðgerðir á landsvísu vegna efnahagslegra afleiðinga.
Þegar gripið var til útgöngubanns á landsvísu í mars 2020 kom það harkalega niður á dagverkamönnum. Talið er að aðgerðirnar hafi ýtt 75 milljónum undir fátækramörk.

Indverska heilbrigðiskrefið er hins vegar sprungið. Á mánudag létust 23 sjúklingar á spítala í ríkinu Karnataka þegar súrefnisbirgðirnar þrutu. Hæstiréttur Delí hefur ákveðið að refsa embættismönnum ef úthlutaðar súrefnisbirgðir berast ekki sjúkrahúsum.
Í gær létust 448 af völdum Covid-19 í höfuðborginni í gær. Fyrir utan Lok Nayak-sjúkrahúsið, þar sem öll 1.500 Covid-19 plássin eru full, mátti sjá hvernig sjúkrabifreiðum var vísað á brott, með fárveika einstaklinga innanborðs.
Þá beið þar fólk eftir því að fá afhentar jarðneskar leifar ástvina.
„Móðir mín beið fyrir utan þetta sjúkrahús í sex tíma í gær en þeir vildu ekki hleypa henni inn, ekki einu sinni þegar súrefnismettunin var komin í 19 prósent,“ segir hin 29 ára Priyanka Gupta.
„Það var bara þegar hún dó sem þeir tóku hana inn og nú veit ég ekki hvenær ég fæ hana til baka.“