Luis Suarez hafði komið boltanum í netið fyrir gestina á 16. mínútu en markið var dæmt af. Sjö mínútum síðar skoraði Llorente hins vegar eftir sendingu Yannick Carrasco og það mark stóð.
Staðan 1-0 toppliðinu í vil og þannig var hún í hálfleik. Þannig var hún raunar allt til leiksloka en á fyrstu mínútu uppbótartíma fengu heimamenn gullið tækifæri til að jafna. Llorente var þá hársbreidd frá því að fara úr hetju í skúrk en hann fékk knöttinn í hendina innan vítateigs og vítaspyrna dæmd.
Fidel Chaves steig á punktinn fyrir Elche en spyrna hans fór í stöngina og út. Inn vildi boltinn ekki og Atlético vann ómetanlegan 1-0 sigur.
Atlético er því með fimm stiga forystu á bæði Real Madrid og Barcelona en síðarnefndu liðin eiga bæði leik til góða. Atlético á fjóra leiki eftir í deildinni en Real og Barca eiga fimm hvort. Sevilla kemur svo í 4. sætinu með 70 stig.
Marcos Llorente scores his 12th La Liga goal of the season to give Atletico Madrid the lead at Elche pic.twitter.com/C2d84Gu1M2
— Goal (@goal) May 1, 2021
Elche hefði þurft á stigi að halda í dag en liðið er sem stendur í fallsæti á markatölu. Real Valladolid er með jafn mörg stig og Deportivo Alaves er þar stigi fyrir ofan.