Innlent

Ekkert smit í fangelsunum: Fangar bólusettir í dag og í lok næstu viku

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Engin smit hafa komið upp meðal starfsmanna eða vistmanna.
Engin smit hafa komið upp meðal starfsmanna eða vistmanna. Vísir/Vilhelm

Allir fangelsisstarfsmenn hafa fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn Covid-19. Fangar á Litla-Hrauni og Sogni verða bólusettir í dag en áætlað er að bólusetja fanga í móttökufangelsinu á Hólmsheiði í næstu viku.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu sem Fangelsismálastofnun birti í gær.

„Þetta er ákaflega ánægjulegt en engin smit hafa komið upp meðal starfsmanna eða vistmanna í faraldrinum hingað til en einn fangi var færður smitaður í gæsluvarðhald. Hlaut hann viðeigandi heilbrigðisþjónustu og breiddist smit ekki út meðal annarra í fangelsinu,“ segir í færslunni.

„Ástæða er til þess að þakka öllum fyrir samhent átak í sóttvörnum. Fangaverðir, heilbrigðisstarfsmenn, aðrir starfsmenn, fangar og Afstaða, félag fanga, hafa allir sem einn staðið vaktina vel í þessum faraldri.“

Fangelsismálastofnun greindi frá því í nóvember að fangelsin væru nánast fullnýtt en 210 einstaklingar afplánuðu með samfélagsþjónustu og hefðu aldrei verið fleiri.

Þegar höft hefðu verið hvað mest hefði stóru fangelsunum verið skipt upp í sóttvarnahólf, sem hefði dregið úr nýtingarmöguleikum. Allt hefði hins vegar gengið vel og starfsmönnum og skjólstæðingum hrósað fyrir.

Bólusetningar ganga vel í fangelsum landsins. Starfsmenn fangelsa hafa allir fengið a.m.k. fyrri bólusetningu og...

Posted by Fangelsismálastofnun ríkisins on Thursday, April 29, 2021



Fleiri fréttir

Sjá meira


×