Erlent

Bandaríkjamönnum sagt að koma sér frá Indlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Syrgjandi fjölskylda bíður eftir að geta látið brenna lík látins ættingja í Nýju Delí. Gríðarlegt álag hefur verið á bálstofum á Indlandi vegna fjölda dauðsfalla í nýjustu bylgju kórónuveirufaraldursins.
Syrgjandi fjölskylda bíður eftir að geta látið brenna lík látins ættingja í Nýju Delí. Gríðarlegt álag hefur verið á bálstofum á Indlandi vegna fjölda dauðsfalla í nýjustu bylgju kórónuveirufaraldursins. Vísir/EPA

Bandaríkjastjórn hvetur borgara sína til þess að yfirgefa Indland eins fljótt og mögulegt er vegna kórónuveirufaraldursins sem geisar nú sem aldrei fyrr í landinu. Sendiráð Bandaríkjanna á Indlandi segir að aðgangur að hvers kyns heilbrigðisþjónustu sé að vera verulega takmarkaður.

Tilkynnt var um 379.257 ný kórónuveirusmit á Indlandi í dag en aldrei áður hafa eins mörg smit greinst á einum degi í heiminum frá upphafi faraldursins, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Í gær náði fjöldi látinna 200.000 samkvæmt opinberum tölum en talið er að raunverulegur fjöldinn sé hærri.

Í ráðleggingum sínum til bandarískra borgara á Indlandi segir bandaríska utanríkisráðuneytið að þeir ættu ekki að ferðast til Indlands og þeir sem eru þar fyrir ættu að koma sér heim það snarasta. Dæmi séu um að bandarískum borgurum hafi verið neitað um þjónustu á sjúkrahúsum þar vegna þess að plássið er á þrotum. Ferðaviðvörun ráðuneytisins er fjórða og hæsta stigs sem það gefur út vegna ferðalaga erlendis.

Staða faraldursins er grafalvarleg á Indlandi. Sjúkrahús eru yfirfull, súrefnisbirgðir þeirra eru á þrotum og líkbrennsla hefur vart undan álaginu. Í dag var tilkynnt um 3.645 dauðsföll en líklega voru þau enn fleiri. Aldrei hafa fleiri látist á einum degi í faraldrinum á Indlandi til þessa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×