Innlent

Um 80 prósent þiggja bólusetningu: Sama hlutfall þiggur bóluefni AstraZeneca og Pfizer

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þórólfur fékk fyrri sprautuna af AstraZeneca í gær og sagðist í dag ekki hafa fundið fyrir aukaverkunum.
Þórólfur fékk fyrri sprautuna af AstraZeneca í gær og sagðist í dag ekki hafa fundið fyrir aukaverkunum. Vísir/Vilhelm

Um 80 prósent þeirra sem voru boðaðir í bólusetningu með bóluefninu frá AstraZeneca þáðu bólusetningu í Laugardalshöll í gær. Þetta er sama hlutfall og mætti í bólusetningu á þriðjudaginn, þegar bólusett var með bóluefninu frá Pfizer.

Frá þessu greindi Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi en eins og frægt er orðið var hann meðal þeirra sem voru bólusettir í gær.

Á þriðjudag voru bólusettir einstaklingar með langvinna sjúkdóma en í gær einstaklingar á aldrinum 60 til 69 ára.

Þórólfur sagði að það væri ánægjulegt hversu margir hefðu þegið bólusetningu í gær, enda væri efnið jafn virkt og örugg og önnur fyrir þann hóp sem stæði það til boða.

Hann sagði fjölda fyrirspurna hafa borist vegna bóluefnisins engu að síður og bað fólk um að sýna biðlund. Mikið álag væri á starfsmönnum heilsugæslunnar vegna fjölda fyrirspurna en þeim yrði öllum svarað með tíð og tíma.

Þá benti hann fólki á að leita upplýsinga á covid.is og á vef Landlæknisembættisins og sagðist gruna að þar mætti finna mörg þeirra svara sem leitað væri að.

Þórólfur sagði að í lok júní ættu Íslendingar að hafa fengið 360 þúsund skammta af bóluefni og væru þá ekki talin með sendingar AstraZeneca og Janssen í maí og júní, þar sem dreifingaráætlun fyrirtækjanna lægi ekki fyrir.

Aðspurður sagðist Þórólfur telja afléttingaráætlun stjórnvalda raunhæfa, að því gefnu að aðgerðir á landamærunum bæru árangur og að dreifingaráætlanir lyfjaframleiðandanna stæðust.

Þá sagði hann fyrri skammt bóluefnanna veita vernd gegn alvarlegum veikindum en fólk gæti enn fengið veiruna og smitað aðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×