Erlent

„Leyfið líkunum að hrannast upp í þúsundatali!“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Boris hefur þverneitað fyrir að hafa látið ummælin falla.
Boris hefur þverneitað fyrir að hafa látið ummælin falla. epa/Neil Hall

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, sætir nú auknum þrýstingi eftir að breskir miðlar greindu frá því í gær að hann hefði sagt að hann vildi frekar sjá þúsundir líka hrannast upp en að grípa aftur til harðra sóttvarnaðgerða.

Mikil reiði greip um sig vegna málsins, ekki síst af hálfu þeirra sem misst hafa ástvin sökum Covid-19, en forsætisráðherrann og stuðningsmenn hans hafa neitað því að hann hafi nokkurn tímann sagt annað eins.

Ummælin eru sögð hafa fallið að loknum fundi í Downing-stræti í nóvember síðastliðnum, þegar Johnson sá sig tilneyddan til að fyrirskipa fjögurra vikna sóttvarnaðgerðir vegna uppsveiflu í kórónuveirufaraldrinum.

„Engin fleiri fokking útgöngubönn; leyfið líkunum að hrannast upp í þúsundatali!“ á Johnson að hafa sagt.

Fjöldi miðla hefur greint frá atvikinu en að sögn heimildarmanns Guardian voru ummælin látin falla fyrir utan skrifstofu forsætisráðherrans, í viðurvist nokkurra einstaklinga. Annar heimildarmaður, sem var ekki viðstaddur, segir að um þau hafi verið rætt á síðasta ári en sá heyrði að Johnson hefði sagt: „Engin fleiri fokking útgöngubönn; skítt með afleiðingarnar“.

Þrátt fyrir staðfasta neitun frá Johnson og talsmanni hans greindi BBC frá atvikinu og sagðist hafa fengið það staðfest að þau hefðu fallið eftir heitar umræður í Downing-stræti.

Andstæðingar Johnson hafa gagnrýnt hann harðlega í kjölfarið og sagt hann hafa náð botninum með því að gera lítið úr þeim 127 þúsund sem hafa látist af völdum Covid-19 í Bretlandi.

Þá hafa samtök aðstandenda sem hafa misst ástvini úr Covid-19 sagt ummælin eins og að fá hnefahögg í magann og hafa magnað reiði þeirra vegna þeirra svara stjórnvalda að ekki verði hægt að hefja rannsókn á viðbrögðum yfirvalda vegna faraldursins á næstu mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×