Erlent

Segja far­aldrinum lokið í Bret­landi en staðan aldrei verri á Ind­landi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Indverjar glíma nú við kröftuga aðra bylgju faraldursins og álagið á heilbrigðiskerfið þar í landi er gríðarlegt. 
Indverjar glíma nú við kröftuga aðra bylgju faraldursins og álagið á heilbrigðiskerfið þar í landi er gríðarlegt.  EPA-EFE/PIYAL ADHIKARY

Þriðja daginn í röð var slegið vafasamt met í fjölda dauðsfalla af völdum covid-19 á Indlandi. Á sama tíma hafa sérfræðingar lýst því yfir að faraldrinum sé lokið á Bretlandi.

Síðastliðna þrjá sólarhringa hafa hátt í milljón greinst með covid-19 á Indlandi, þar af hátt í þrjú hundruð og fimmtíu þúsund í gær. Síðastliðinn sólarhring létust ríflega tvö þúsund og sex hundruð úr sjúkdómnum sem er nýtt met á einum degi.

Sjúkrahús eru yfirfull og súrefnisbirgðir af skornum skammti. Í nótt létust til að mynda tuttugu einstaklingar á einu sjúkrahúsi í Delí sem rekja má til súrefnisskorts. Herinn hefur verið kallaður til til að aðstoða við dreifingu súrefnis um landið. Á hverjum degi tekur heilbrigðisstarfsfólk við símtölum þar sem aðstandendur grátbiðja um aðstoð til handa veikum fjölskyldumeðlimum, en fá ekkert að gert. Leitað er allra leiða til að útskrifa sjúklinga um leið og ástand þeirra er orðið stöðugt.

Hæstiréttur Indlands hefur sagt neyðarástand ríkja vegna stöðu kórónuveirufaraldursins í landinu en aðrir hafa talað um algjört kerfishrun. Ástandið má meðal annars rekja til máttlausra sóttvarnaaðgerða og sinnuleysis.

Segja heimsfaraldri lokið í Bretlandi

Á sama tíma og faraldurinn nær nýju hámarki á Indlandi hafa sérfræðingar sagt faraldrinum svo gott sem lokið á Bretlandi. Árangurinn megi rekja til góðs árangurs við bólusetningar, sem hafi leitt til þess að smituðum sem sýna einkenni hefur fækkað um allt að níutíu prósent.

Sérfræðingar sem standa að baki fyrstu stóru rannsókninni á áhrifum bólusetningar vilja því meina að ekki sé lengur hægt að segja að Bretland glími við heimsfaraldur (e. pandemic), heldur faraldur (e. epidemic) þar sem útbreiðsla veirunnar er lítil og ástandið undir stjórn.

Rannsóknin leiddi í ljós að dregið hafi verulega úr útbreiðslu veirunnar meðal almennings, en tilfellum bæði þar sem folk sýnir einkenni og þar sem folk sýnir engin einkenni hefur fækkað að því er fram kemur í umfjöllun Telegraph.

Rannsóknin byggir á sýnum sem tekin voru frá 373.402 einstaklingum á tímabilinu 1. desember til 3. apríl. Niðurstöður benda til þess að þremur vikum eftir fyrsta skammt bóluefnis Pfizer eða AstraZeneca hafi dregið úr smitum þar sem fólk sýnir einkenni um 74 prósent og fjöldi smita þar sem einkenni voru engin fóru niður um 57 prósent.

Eftir tvo skammta bóluefnis fór hlutfallið niður um sjötíu prósent hvað varðar einkennalaus smit og um níutíu prósent hvað varðar smit með einkennum.

Heilt yfir hefur greindum smitum fækkað um sjö prósent undanfarna viku, þrátt fyrir opnun skóla og verslana, og dauðsföllum hefur fækkað um 26 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×