Erlent

Veik von um að kafbáturinn finnist í tæka tíð

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Indónesíski herinn hefur notið liðsinnis fjölda erlendra ríkja við leitina að kafbátnum. 
Indónesíski herinn hefur notið liðsinnis fjölda erlendra ríkja við leitina að kafbátnum.  EPA-EFE/MADE NAGI

Dvínandi líkur eru taldar á því að kafbátur indónesíska sjóhersins, sem hvarf úti fyrir ströndum Balí, finnist í tæka tíð svo unnt sé að bjarga áhöfninni áður en súrefni verður á þrotum. 53 eru í áhöfninni en áætlað er að súrefni verði á þrotum nú að morgni laugardags að staðartíma.

Víðtæk leit stendur yfir að kafbátnum en auk indónesíska hersins og annarra viðbragðsaðila hafa Bandaríkjamenn og Ástralir sent skip og þyrlur aðstoðar við leitina. Þá er liðsauki frá Singapúr og Indlandi jafnframt væntanlegur samkvæmt frétt Reuters en Malasía, Frakkland og Þýskaland hafa jafnframt boðið fram aðstoð.

„Möguleikann á því að kafbáturinn hafi farið niður fyrir hámarksdýpið sem hann þolir, sem leiðir til þess að hann fellur saman, verður að taka með inn í reikninginn,“ segir Collin Koh, sérfræðingur við Stofnun varnar- og öryggismálafræða (IDSS). „Svo er möguleiki að súrefnið sé þegar á þrotum,“ bætir hann við.

Hann telur það vera bjartsýni að súrefnið endist í 72 klukkustundir líkt og talað hafi verið um, í ljósi þess að kafbáturinn hefur takmarkaða getu til að framleiða súrefni í ljósi hefðbundinnar orkuframleiðslu kafbátsins.

Indónesíski herinn sagðist í fyrrakvöld hafa fundið merki um fyrirbæri á fimmtíu til hundrað metra dýpi og hefði sent skip með hljóðsjá til þess að kanna hvort að þar sé á ferðinni KRI Nanggala 402-kafbáturinn sem hefur verið saknað frá því á miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×