Innlent

Enn annað breskt afbrigði greinst hér á landi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
júlíus sigurjónsson

Einn einstaklingur greindist með nýtt afbrigði af breska afbrigði kórónuveirunnar. Smitið er rakið saman við smit einstaklings á landamærunum. Afbrigðið hefur ekki greinst áður hér á landi. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir segir þetta hafa komið á óvart.

„Það er eitt smit sem hefur fundist á landamærum sem tengist ekki hinum hópsýkingunum sem tengist landamærunum fyrir nokkrum vikum. Það hefur nú einn greinst innanlands sem er með sömu tegund og við vitum ekki nákvæmlega hvernig það hefur gerst hvort hann hefur brotið sóttkví og hvernig það hefur gerst og hvernig smitið hefur farið áfram. Það er ekki ljóst,“ segir Þórólfur. 

Einstaklingurinn sem greindist með nýja afbrigðið greindist fyrir nokkrum dögum að sögn Þórólfs. 

„Þegar við erum með svona góðar upplýsingar eins og með raðgreiningu á veirunni og getum stillt veirunum saman og séð hvaða veirur tengjast og svona þá er margt sem kemur á óvart. Auðvitað getur maður spurt sig hvernig hefur smitið orðið og vantar þá einhverja einstaklinga inn í hlekkina sem hafa verið milliliðir. Við vitum að það er alltaf einhver hluti sem fær veiruna og sýnir lítil sem engin einkenni og fer ekki í sýnatöku og þeir aðilar geta borið veiruna áfram og smitað aðra. Þess vegna hef ég sagt: við vitum að veiran er þarna úti hjá einstaklingum með lítið eða engin einkenni,“ segir Þórólfur og bætir við að þess vegna þurfi allir að fara varlega. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×