Íslenski boltinn

Pepsi Max-spáin 2021: Belgísk áhrif á Brekkunni

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir KA 5. sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar.

Ingvi Þór Sæmundsson, Runólfur Trausti Þórhallsson og Sindri Sverrisson skrifa
KA var eina lið Pepsi Max-deildarinnar sem tapaði ekki heimaleik í fyrra. vísir/vilhelm

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir KA 5. sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar.

Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir að venju fyrir um gengi liðanna í Pepsi Max-deild karla með árlegri spá sinni fyrir mótið. Keppni í deildinni hefst með leik Vals og ÍA föstudagskvöldið 30. apríl. Valsmenn eiga titil að verja en þeir urðu Íslandsmeistarar í 23. sinn í sögu félagsins í fyrra.

Íþróttadeild spáir KA 5. sæti Pepsi Max-deildarinnar í sumar og að liðið hoppi upp um tvö sæti frá því í fyrra.

Síðasta tímabil var ansi sérstakt hjá KA. Aðeins liðin sem féllu unnu færri leiki en Valur og Stjarnan voru þau einu sem töpuðu færri leikjum. KA-menn gerðu hins vegar ógrynni af jafnteflum, alls tólf, og jöfnuðu jafnteflametið í efstu deild. KA lenti í 7. sæti og var taplaust á heimavelli.

Arnar Grétarsson tók við KA snemma á síðasta tímabili eftir að Óli Stefán Flóventsson var látinn taka pokann sinn. Arnar kom varnarleiknum í gott lag en lítið púður var í sókninni og aðeins fallliðin skoruðu færri mörk en KA, eða tuttugu.

KA-menn hafa blásið í herlúðra í vetur. Arnar verður áfram með liðið sem er talsvert sterkara en á síðasta tímabili. KA fékk góða sendingu frá Belgíu, serbneskan miðvörð, Daníel Hafsteinsson sneri aftur heim og Elfar Árni Aðalsteinsson er kominn aftur á grasið eftir að hafa misst af öllu síðasta tímabili vegna meiðsla. Það ríkir því mikil bjartsýni fyrir tímabilinu í höfuðstað Norðurlands.

Síðasta tímabil hjá KA

  • Sæti: 7
  • Stig: 21
  • Vænt stig (xP): 21,1
  • Mörk: 20
  • Mörk á sig: 21
  • Vænt mörk (xG): 26,7
  • Vænt mörk á sig: 32,2
  • Með boltann: 48,2%
  • Heppnaðar sendingar: 77,9%
  • Skot: 12,5
  • Aðalleikaðferð: 4-1-4-1 (52%)
  • Meðalaldur: 26,7
  • Markahæstur: Guðmundur Steinn Hafsteinsson (6)

Liðið og lykilmenn

Líklegt byrjunarlið KA.vísir/toggi

Brynjar Ingi Bjarnason (f. 1999): Ungur miðvörður sem sló í gegn síðasta sumar. Er að fara inn í sitt þriðja tímabil með KA og verður í lykilhlutverki líkt og á síðustu leiktíð. Nýtur sín einkar vel í liði sem leggur mikið upp úr öflugum varnarleik. Brynjar Ingi les leikinn vel og er með frábæran hægri fót sem nýtist vel í uppspili Akureyringa. Þá skoraði hann tvö mörk á síðustu leiktíð.

Daníel Hafsteinsson (f. 1999): Mættur í gulu treyjuna á nýjan leik eftir að hafa farið til Svíþjóðar 2019 og leikið með FH á láni síðasta sumar. Fann sig ekki nægilega vel í atvinnumennskunni og er mættur á heimaslóðir þar sem hann ætlar að sýna sínar bestu hliðar. Sterkur miðjumaður með góðar sendingar og frábær hlaup inn í teig andstæðinga. Ef allt er eðlilegt mun hann gefa KA mikið á báðum endum vallarins.

Hallgrímur Mar Steingrímsson (f. 1990): Allt í öllu í sóknarleik KA undanfarin ár. Ef Hallgrímur Mar á góðan leik á KA góðan leik, svo einfalt er það. Átti ekki sitt besta sumar í fyrra en fann sig betur eftir því sem leið á tímabilið. Er með frábæra spyrnugetu og stór ástæða þess að KA er alltaf líklegt til að skora eftir föst leikatriði. Ætti að njóta sín vel í sterku liði KA í sumar. 

Brynjar Ingi Bjarnason, Daníel Hafsteinsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson.vísir/vilhelm/bára

Leikstíllinn

Í þremur orðum: Skipulagður og vel æfður.

Í fyrra lagði Arnar Grétarsson mikið upp úr þéttum og skipulögðum varnarleik. Reikna má með því sama í ár en liðið verður að öllum líkindum aðeins djarfara fram á við. 

Í fyrra var uppspil KA breytilegt eftir mótherjum en í grunninn virðist Arnar vilja að lið sitt byggi upp spil ef boltinn er í leik. Kristijan Jajalo rúllar eða hendir boltanum þá nær alltaf á miðverði eða bakverði sína. Í markspyrnum virðist uppleggið öfugt en Jajalo sendi boltann þá nær alltaf langt upp völlinn.

Liðið setur pressu á lið sem spila út frá marki og getur sett upp ágætis hápressu ef sá gállinn er á þeim. Hefðbundin pressa Akureyringa hefst hins vegar venjulega rétt fyrir framan miðju. 

Þéttir til baka og snöggir fram á við lýsir leikstíl KA ágætlega en það er hins vegar erfitt að lesa í leikstíl liðsins í ár þar sem koma Jonathans Hendrickx í hægri bakvörðinn, Daníels og Serbastiaans Brebels á miðjuna og möguleg endurkoma Elfars Árna eftir erfið meiðsli breytir uppleggi KA liðsins allverulega. 

Markaðurinn

vísir/toggi

Stuðningsmenn KA geta líklega verið manna glaðastir yfir viðskiptum vetrarins sem virðast skila sér í sterkari leikmannahóp en áður.

Hendrickx er þekkt stærð í íslenska boltanum eftir að hafa leikið vel með FH og Breiðabliki. KA-menn gerðu vel í að fá þennan sókndjarfa bakvörð sem síðast lék með Lommel í næstefstu deild heima í Belgíu.

Hendrickx tók með sér félaga sinn úr Lommel, miðjumanninn Sebastiaan Brebels, sem er tæplega 26 ára gamall. Hann fékk ekki mörg tækifæri í efstu deild með Zulte-Waregem en var byrjunarliðsmaður hjá Lommel síðustu ár og skoraði tvö mörk í þrettán leikjum á leiktíðinni sem nú er í gangi, fyrir lið í toppbaráttu.

KA hefur líka fengið góðan liðsstyrk í vörnina en hinn 32 ára Dusan Brkovic frá Serbíu varð til að mynda ungverskur meistari með Debrecen árið 2014. Hann skoraði þrjú mörk í 25 leikjum fyrir Diósgyör í ungversku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

Það var afar dýrmætt fyrir KA að fá Daníel aftur heim og á miðsvæðið, sérstaklega eftir að fyrirliðinn Almarr ákvað að láta gott heita í gula búningnum.

Guðmundur Steinn var helsta ógn KA fram á við í fyrra en skoraði þó aðeins sex mörk og ætti ekki að vera mikill missir ef Elfar Árni er klár í slaginn. Þá fá KA-menn ekki lengur löngu innköstin frá varnarmanninum Mikkel Qvist. Aron Dagur kvaddi svo hann mun ekki veita Jajalo samkeppni um markvarðarstöðuna en til þess er kominn heim Steinþór Már, eða Stubbur eins og hann er alltaf kallaður, frá Magna.

Hvað vantar? KA þarf að skora fleiri mörk. Snöggur og leikinn, beinskeyttur kantmaður gæti hjálpað mest til í þeim efnum.

Að lokum

Kristijan Jajalo átti mjög gott tímabil í marki KA í fyrra.vísir/vilhelm

KA er vel vopnuð búið eftir að hafa hnyklað vöðvana á félagaskiptamarkaðnum í vetur. Liðið hefur ekki endað ofar en í 5. sæti síðan það kom aftur upp í efstu deild en nú er stefnan sett á að gera betur og ná Evrópusæti.

Arnar er afar fær þjálfari og með hann í brúnni geta KA-menn verið vissir um að varnarleikurinn verði í lagi. Sóknin verður hins vegar að vera mun beittari en í fyrra og KA þarf að fá meira frá Ásgeiri Sigurgeirssyni og Hallgrími Mar Steingrímssyni sem léku undir pari í fyrra.

KA-menn fara gulir og glaðir inn í sumarið og það er innistæða fyrir bjartsýninni. KA tapar varla á heimavelli og ef liðið sækir fleiri stig í bæjarferðunum gæti það gert atlögu að Evrópusæti.


Tengdar fréttir






×