Erlent

Grænlendingar afnema fjöldatakmarkanir

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Vel hefur gengið í baráttunni gegn covid-19 á Grænlandi
Vel hefur gengið í baráttunni gegn covid-19 á Grænlandi EPA-EFE/EMIL HELMS DENMARK OUT

Nýjar sóttvarnareglur tóku gildi á Grænlandi í gær þar sem gripið er til töluverðra afléttinga.

Með nýjum reglum verður heimilt að halda fjölmennari mannamót en verið hefur til þessa, og á það einkum við um einkasamkvæmi á borð við afmælisveislur og brúðkaup. Fjöldatakmörk hafa verið algjörlega afnumin og er því ekki lengur neitt þak á fjölda þeirra sem mega koma saman. Áður en reglurnar tóku gildi miðuðust fjöldatakmörk við hundrað manns á viðburðum innanhúss og 250 á viðburðum utandyra.

Þrátt fyrir að ekki sé lengur neitt hámark hvað varðar hversu margir mega koma saman gildir þó áfram sú regla að ekki megi fleiri vera saman komnir innan húss en sem nemur helmingi leyfilegs hámarksfjölda í opinberum rýmum og samkomustöðum samkvæmt frétt KNR.

Þar að auki eru gestir, bæði frá öðrum löndum og öðrum sveitarfélögum, nú velkomnir að sækja brúðkaup, afmæli eða hvers konar fjölmennt samkvæmi alls staðar á Grænlandi. Fólk sem kemur frá útlöndum verður þó að hlíta þeim reglum sem gilda á landamærum.

Enn þarf að uppfylla ákveðin skilyrði ef um viðburði er að ræða sem ekki geta talist sem einkasamkvæmi. Áfram eru í gildi tilmæli um almennar persónubundnar sóttvarnir og hvatt til þess að halda bilið manna á milli.

Vel hefur gengið í baráttunni gegn covid-19 á Grænlandi en ekki hefur greinst smit í landinu síðan í byrjun mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×