Tilraunaflugferðin átti að hefjast klukkan 7:30 að íslenskum tíma í morgun. Bandaríska geimvísindastofnunin NASA ætlar að streyma fyrstu myndunum og niðurstöðum flugferðarinnar í beinni útsendingu klukkan 10:15. Hægt er að horfa á útsendinguna í spilaranum hér fyrir neðan.
Ætlunin var að láta Ingenuity svífa upp í þriggja metra hæð í fjörutíu sekúndur. Perseverance könnunarjeppinn sem flutti Ingenuity með sér til Mars fylgist með tilraunaflugferðinni með myndavélum sínum í um hundrað metra fjarlægð. Fyrstu myndirnar sem berast eiga að vera úr svarthvítri myndavél á kviði Ingenuity. Space.com segir að myndir frá Perseverance og annarri myndavél Ingenuity verði líklega birtar síðar.
Þetta er í fyrsta skipti sem menn reyna að fljúga farartæki undir eigin afli á öðrum hnetti. Engin vísindatæki eru um borð í Ingenuity en vængjunni er aðeins ætlað að láta reyna á aðstæður til flugs.
Upphaflega stóð til að reyna fyrsta tilraunaflugferðina fyrr í þessum mánuði en því var frestað eftir að hnökrar komu upp þegar mótor vængjunnar var prófaður. Þurftu verkfræðingar leiðangursins að uppfæra hugbúnað Ingenuity í framhaldinu.