NRK greinir frá þessu í dag þar sem vitnað er í frétt norska blaðsins Oppland Arbeiderblad. Haft er eftir stúlku sem stödd var á svæðinu að ungmennin hafi setið þétt saman og að sóttvörnum hafi verið ábótavant.
Sveitarstjóri í Gjøvik gagnrýnir að ungmennum úr fimm sveitarfélögum hafi verið hópað saman til að sækja viðburðinn sem stóð yfir dagana 10. til 11. apríl. „Við viljum forðast fjöldasamkomur þar sem fólk frá ólíkum sveitarfélögum kemur saman. Það eykur hættuna á að því að einhver beri með sér smit sem getur breiðst út,“ segir Siri Fuglem Berg, sveitarstjóri.
Samkomuhúsið Campus Arena er í eigu sveitarfélagsins sem leigða það út til samtakanna. Við undirbúning viðburðarins var send fyrirspurn til sveitarfélagsins. Svar sveitarfélagsins var á þá leið að viðburðurinn væri á mörkum þess að falla undir skilgreiningu þeirrar tegundar viðburða sem heimilt er að halda samkvæmt sóttvarnareglum og því væri ekki ráðlagt að halda viðburðinn.
„Við mæltum einnig með því að þau myndu skoða að halda viðburðinn rafrænt og að ekki ætti að safna saman þátttakendum frá mismunandi sveitarfélögum,“ segir Fuglem. „Sama hvernig það er skilgreint þá hljómar ekki skynsamlega að safna saman svona mörgum á einn stað.“
Samtökin Human-Etisk halda því fram að vel hafi verið hugað að gildandi sóttvarnareglum.