Körfubolti

NBA dagsins: Níundi þrjátíu stiga leikur Currys í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stephen Curry er með 38,1 stig að meðaltali í síðustu níu leikjum sínum.
Stephen Curry er með 38,1 stig að meðaltali í síðustu níu leikjum sínum. ap/David Dermer

Stephen Curry halda engin bönd um þessar mundir. Hann hefur nú skorað þrjátíu stig eða meira í níu leikjum í röð.

Curry skoraði þrjátíu stig þegar Golden State Warriors vann Cleveland Cavaliers, 101-119, í NBA-deildinni í nótt. Þetta var fjórði sigur Golden State í röð.

Curry var nokkuð lengi í gang í leiknum í Cleveland í nótt og átta fyrstu skot hans fyrir utan þriggja stiga línuna geiguðu. Curry hitti úr fjórum af þrettán þriggja stiga skotum sínum í leiknum sem þykir ekkert sérstaklega góð nýting á þeim bænum. Í síðustu þremur leikjum á undan leiknum í nótt hitti hann úr samtals 29 þriggja stiga skotum.

Í síðustu níu leikjum hefur Curry skorað 38,2 stig að meðaltali og er með stórkostlega skotnýtingu; 54,5 prósent í skotum utan af velli, 47 prósent í þristum og 91,8 prósent í vítum.

Curry er næststigahæsti leikmaðurinn í NBA á tímabilinu með 30,7 stig að meðaltali í leik. Aðeins Bradley Beal hjá Washington Wizards hefur skorað meira, eða 31,0 stig að meðaltali í leik.

Golden State er í 9. sæti Vesturdeildarinnar og er í góðri stöðu til að komast í umspil um sæti í úrslitakeppninni. Cleveland er hins vegar í þrettánda og þriðja neðsta sæti Austurdeildarinnar.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá brot úr leikjum Cleveland og Golden State, Boston Celtics og Los Angeles Lakers og Atlanta Hawks og Milwaukee Bucks auk flottustu tilþrifa næturinnar.

Klippa: NBA dagsins 16. apríl

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×