Innlent

Bóluefnið sem er aðeins gefið fólki utan áhættuhópa

Fimm af hverjum milljón Bretum sem bólusettir hafa verið með bóluefni AstraZeneca eiga á hættu að fá alvarlega blóðtappa. Hlutfallið er einn af hverjum fjörutíu þúsund í Danmörku og Noregi. Sóttvarnalæknir segir aðeins einstaklingum utan áhættuhópa boðið bóluefnið sem veiti góða vörn gegn Covid-19.

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir þá sem hafa fengið fyrri skammtinn af AstraZeneca og eru yngri en 60 ára, líklega munu fá seinni skammtinn í formi bóluefnis Pfizer eða Moderna. epa/Ciro Fusco

Fimm af hverjum milljón Bretum sem bólusettir hafa verið með bóluefni AstraZeneca eiga á hættu að fá alvarlega blóðtappa. Hlutfallið er einn af hverjum fjörutíu þúsund í Danmörku og Noregi. Sóttvarnalæknir segir aðeins einstaklingum utan áhættuhópa boðið bóluefnið sem veiti góða vörn gegn Covid-19.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir enga einhlíta skýringu á því hvers vegna tíðni alvarlegra blóðtappa virðist meiri hjá nágrönnum okkar í Danmörku og Noregi en í Bretlandi. Það megi mögulega rekja til erfða eða jafnvel bara betra eftirlits og skráninga.

Hann segir tölurnar frá Danmörku og Noregi ekki hafa áhrif á fyrirætlanir hérlendis um notkun bóluefnis AstraZeneca.

„Nei, í raun og veru ekki, því þessi aukna áhætta og þessar aukaverkanir eru áfram að sjást hjá fólki sem er yngra en 60 ára og konum sérstaklega. Þannig að þetta er svona í takt við það sem við erum að gera; að nota [bóluefnið] hjá eldri einstaklingum en 65 ára. Og þá undanskiljum við fólk sem er með aukna tilhneigingu til að fá blóðtappa.

Við erum að reyna að finna þann hóp af fólki sem við teljum ekki vera í aukinni áhættu að fá þessa alvarlegu aukaverkun,“ segir Þórólfur.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Blóðtappamyndun samfara storkutruflun

Umrædd alvarleg aukaverkun er afbrigði af afar sjaldgæfu storkuvandamáli, þar sem fer saman blóðtappamyndun og alvarleg blóðflögufæð og veruleg storkutruflun.

„Það verður mikil notkun á storkuþáttum líkamans, þannig að storkukerfið fer úr böndunum, raskast, og dreifingin á blóðtöppunum er líka svolítið önnur en almennt sést þannig að fólk er að fá tappa í önnur líffæri,“ sagði Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir á Landspítalanum og prófessor í smitsjúkdómum við Háskóla Íslands, í Bítinu í gærmorgun.

Þórólfur ítrekar að aukaverkana verði helst vart hjá yngra fólki, sem geti meðal annars skýrst af kröftugra ónæmissvari. Þá séu konur líklegri en karlar til að þjást af aukaverkununum og telja um tvo þriðjuhluta þeirra sem hafa greinst með aukaverkanir á Bretlandseyjum.

„Konur hafa aukna áhættu á blóðtöppum umfram karlmenn svona almennt og svo geta konur verið á getnarvarnapillunni sem eykur áhættuna. Þannig að það er margt sem spilar þarna inn í,“ segir Þórólfur.

„En ég tel að með þessari nálgun, eins og Svíar og Finnar og reyndar flest lönd í Evrópu, að bólusetja þá sem eru eldri en 65 ára með þessu bóluefni, þá séum við algjörlega að lágmarka áhættuna,“ bætir hann við.

Ungar konur á Íslandi, og víðar í Evrópu, verða ekki bólusettar með bóluefninu frá AstraZeneca.epa/Fehim Demir

Samlegðaráhrif hjá ungum konum?

Aðspurður segir Þórólfur ekki vita hvort um samlegðaráhrif sé að ræða; það er að segja hvort pillan auki áhættu kvenna á að fá hina alvarlegu blóðtappa í kjölfar bólusetningar með AstraZeneca.

Hættan á blóðtappa af völdum pillunnar er talin vera um 0,3 til 1 prósent en þess ber að geta að um er að ræða aðra tegund blóðtappa og minna alvarlega, þó þeir geti vissulega valdið alvarlegum veikindum og jafnvel dauða.

„Algengustu blóðtapparnir eru blóðtappar í bláæðum í útlimum; fótleggjum og svo framvegis. Svo geta komið blóðtappar í lungnaæðar, til dæmis. Svo eru náttúrulega þessar alvarlegu tegundir; blóðtappar með blæðingum sem orsakast oft af því að það myndast mótefni gegn blóðflögunum og þá getur þetta gerst í bláæðum í höfði og kviðarholi,“ segir Þórólfur.

Hann nefndi það á upplýsingafundi í gær að það yrði mögulega athugað að gefa karlmönnum yngri en 65 ára bóluefnið frá AstraZeneca en sagði í samtali við Vísi að það hefði ekki verið tekið til alvarlegrar skoðunar.

Bretar fagna nú afléttingu aðgerða en um 60 prósent þjóðarinnar hafa fengið að minnsta kosti fyrri skammt. Um 20 milljónir hafa fengið bóluefnið frá AstraZeneca.epa/Andy Rain

Bóluefnin aðeins boðin þeim sem standa utan áhættuhópa

Spurður um bóluefnið frá Janssen, sem hefur verið sett á bið í Bandaríkjunum eftir að sex einstaklingar af sjö milljón bólusettra fengu alvarlega blóðtappa, segist Þórólfur fylgjast vel með þróun mála. 

Atvikin séu til skoðunar vestanhafs og hjá Lyfjastofnun Evrópu og niðurstöðu að vænta í næstu viku.

Sóttvarnalæknir segir það vissulega myndu setja strik í reikninginn ef íslensk heilbrigðisyfirvöld hættu að mæla með notkun bóluefnanna frá AstraZeneca og Janssen en á móti kæmi að Pfizer hafi verið að gefa í hvað framleiðslu varðar.

Hann ítrekar hins vegar að bóluefnin tvö verði aðeins boðin þeim sem eru taldir standa utan áhættuhópa og að öll bóluefnin veiti góða vörn gegn SARS-CoV-2 og sjúkdómnum Covid-19.

„Svo má ekki gleyma áhættunni á blóðtöppum hjá fólki sem fær Covid,“ segir hann. 

„Um 20 til 30 prósent þeirra sem fá Covid geta fengið svona blóðtappavandamál, sérstaklega þeir sem fá alvarlega sýkingu og leggjast inn á gjörgæslu. Talan er eitthvað lægri svona almennt séð, kannski um fimm prósent svona heilt yfir.“

Sú ákvörðun stendur að leyfa fólki ekki að velja á milli bóluefna en Þórólfur segir það alltof erfitt í framkvæmd.Vísir/Vilhelm

Bresk yfirvöld mæla með að fólk sé vakandi fyrir einkennum

Samkvæmt bresku heilbrigðiseftirlitsstofnuninni MHRA hafa hundrað manns fengið umrædda alvarlega aukaverkun, það er að segja blóðtappa og blóðflögufæð, af 20,6 milljón bólusettum. Þar af hafa 22 látist.

Þórólfur segir einkenni vegna aukaverkana yfirleitt koma fram á innan við tveimur vikum eftir bólusetningu en öllum sem eru bólusettir sé ráðlagt að leita læknis vegna einkenna.

MHRA mælir með því að þeir sem þjást af eftirfarandi einkennum fjórum dögum eftir bólusetningu leiti strax læknisaðstoðar: Alvarlegum eða viðvarandi höfuðverk, sjóntruflunum, brjóstverkjum, öndunarerfiðleikum, bólgnum fótleggjum, viðvarandi magaverk, óvenjulegum marblettum eða dílablæðingum á öðrum stöðum en stungustaðnum.

Danmörk er eina Evrópuríkið sem hefur ákveðið að hætta alfarið notkun bóluefnisins frá AstraZeneca, enn sem komið er. Norðmenn gert hlé á notkun bóluefnisins í þrjár vikur. Þá hafa yfirvöld í Þýskalandi, á Spáni og á Írlandi ákveðið að gefa efnið aðeins 60 ára og eldri.

Í Frakklandi fá aðeins 55 ára og eldri bóluefnið og í Ástralíu 50 ára og eldri.

Danir hafa meðal annars réttlætt ákvörðun sína með því að vísa til þess að búið sé að bólusetja alla þá sem eru í helstu áhættuflokkum vegna Covid-19.

Landlæknir birti í dag tilkynningu varðandi bóluefni AstraZeneca sem sjá má að neðan.

Fréttatilkynning landlæknis vegna COVID-19 bóluefnis frá Astra Zeneca

Einstaklingum á aldrinum 60–69 ára sem ekki hafa áhættuþætti sem auka hættu á segamyndun skv. minnisblaði blóðmeinafræðinga til sóttvarnalæknis 9.4. sl. verður boðin bólusetning með Astra Zeneca bóluefni.

Einstaklingar sem hafa aukna hættu á segamyndun að mati blóðmeinafræðinga sem þegar hafa fengið einn skammt af Vaxzevria munu verða boðaðir í mRNA bóluefni, í flestum tilvikum bóluefni frá Pfizer, þegar 12 vikur eru liðnar frá fyrstu bólusetningunni.

Einstaklingar sem ekki þiggja þessa bólusetningu þegar boð berst geta fylgst með auglýsingum í opna daga í bólusetningar fyrir þennan aldurshóp eða haft samband við heilsugæslu á sínu svæði til að fá upplýsingar um hvaða daga bólusetning er í boði en fá ekki aftur boð úr miðlæga kerfinu.

Einstaklingar sem fá boð í Vaxzevria bólusetningu sem eru með áhættuþætti skv. minnisblaði blóðmeinafræðinga þurfa að hafa samband við heilsugæslu sem fer yfir sjúkrasögu og getur séð til þess að viðkomandi fái frekar mRNA bóluefni ef tilefni er til.

Ekki er hægt að óska eftir öðru bóluefni á grundvelli persónulegra óska eða annarrar sjúkrasögu einstaklinga, hvorki hjá heilsugæslu né sóttvarnalækni.

Læknar sem telja ástæðu til að aðrar sjúkdómsgreiningar en þær sem koma fram í minnisblaði blóðmeinafræðinga fái merkingu fyrir ákveðið bóluefni þurfa að hafa samband við sóttvarnalækni.






×