Greint er frá þessu á vef flokksins. Rafrænt forval fór fram 10. til 12. apríl og var valið í efstu fimm sæti á framboðslista hreyfingarinnar í Suðurkjördæmi.
Athygli vekur að þingmaðurinn Kolbeinn Óttarsson Proppé, sem sóttist einnig eftir fyrsta sæti, lenti í því fjórða en hann er nú á þingi fyrir Reykjavíkurkjördæmi suður. Verða að teljast litlar líkur á því að varaformaður þingflokksins komist aftur inn á þing miðað við skoðanakannanir síðustu missera ef niðurstaðan stendur óhögguð. Flokkurinn er í dag með einn þingmann úr Suðurkjördæmi.
Þá tókst Róberti Marshall, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, ekki að koma sér í efstu fimm sætin en hann hafði sömuleiðis sóst eftir því að leiða listann í Suðurkjördæmi.
Hólmfríður tekur við sæti Ara Trausta Guðmundssonar, 5. þingmanns Suðurkjördæmis, sem sóttist ekki eftir að gegna áframhaldandi þingmennsku á næsta kjörtímabili.
Niðurstaða forvalsins er eftirfarandi:
1. sæti Hólmfríður Árnadóttir með 165 atkvæði
2. sæti Heiða Guðný Ásgeirsdóttir með 188 atkvæði í 1.- 2. sæti
3. sæti Sigrún Birna Steinarsdóttir með 210 atkvæði í 1.- 3. sæti
4. sæti Kolbeinn Óttarsson Proppé með 176 atkvæði 1.- 4. sæti
5. sæti Helga Tryggvadóttir með 264 atkvæði 1. – 5. sæti
Átta voru í framboði, á kjörskrá voru 671 og atkvæði greiddu 456. Kosningaþátttaka var því 68 prósent. Auðir seðlar voru 6 og ógildir voru enginn.
Kjörstjórn leggur fram lista með 20 frambjóðendum fyrir kjördæmisþing til samþykktar í samræmi við lög og stefnu hreyfingarinnar.
Leggur áherslu á jafnrétti, jöfnuð og fjölmenningu
Hólmfríður hefur verið virk í starfi flokksins undanfarin ár og er formaður svæðisfélags Vinstri grænna á Suðurnesjum.
„Í gegnum störf mín í stjórnmálum tel ég skipta miklu máli að áherslur VG fái stóraukið vægi í því fjölbreytta, gjöfula umhverfi og náttúru sem Suðurlandið er. Þá skiptir miklu að íbúi af fjölmennasta og fjölbreyttasta svæði kjördæmisins leiði listann með jafnrétti, jöfnuð, lýðræði, sjálfbærni, fjölmenningu og réttlæti að leiðarljósi,“ sagði Hólmfríður í Facebook-færslu þegar hún tilkynnti framboð sitt í nóvember.
Þá sagðist hún ætla að leggja áherslu á velferð barna og fjölskyldna.
„Hér á Suðurnesjum þurfum við að leggja ríka áherslu á að efla heilbrigðisþjónustu við íbúa. Þá þarf einnig að horfa til fjölbreyttari atvinnumöguleika og samfélags þar sem vel er stutt við fjölmenningu og menntun í öllu kjördæminu með umhverfi, mannlíf og verndun náttúrunnar efst í huga.“
Alþingiskosningar verða haldnar þann 25. september næstkomandi.
Fréttin hefur verið uppfærð.