Norska sjónvarpsstöðin TV2 segir að maðurinn hafi verið eftirlýstur af alþjóðalögreglunni Interpol að beiðni norskra yfirvalda. Hann hafi verið tekinn höndum á Íslandi. Hans bíður fjögurra vikna gæsluvarðhald í Noregi.
Handtaka mannsins tengist mannráni og grófri líkamsárás á Reidar Olsen, listaverkasala, í borginni Björgvin í desember árið 2015. Osen hélt því fram að mannræningjarnir hefðu ráðist á hann í bíl sínum í miðborg Björgvinjar og rænt honum. Þeir hafi síðan barið hann, hótað honum lífláti og sýnt honum gröf sem þeir kæmu honum í ef hann greiddi þeim ekki tvær milljónir norskra króna, jafnvirði um þrjátíu milljóna íslenskra króna.
Fjórum árum síðar var málið tengt við mannrán og árás á annan mann, Petter Slengesol, þetta sama ár.
Rannsókn málsins dróst á langinn en fimm árum eftir að brotin voru framin hlutu tveir pólskir karlmenn á fertugsaldri fangelsisdóma. Maðurinn sem var handtekinn á Íslandi er bróðir annars þeirra.
Annar þeirra sakfelldu hlaut fimm ára og fjögurra mánaða fangelsisdóm. Sá sem á bróðirinn sem var handtekinn á Íslandi var sýknaður af ákæru um stórfellda líkamsárás á Osen en hlaut tveggja og hálfs árs fangelsisdóm fyrir rán og líkamsárás á Slengesol.