Sendiherrann, Kyaw Zwar Minn, segir að hluti starfsfólksins hafi verið rekið út í gærkvöldi og að honum hafi verið sagt að hann væri ekki lengur fulltrúi þjóðar sinnar í Bretlandi.
Herinn í Mjanmar hrifsaði til sín öll völd í landinu þann fyrsta febrúar síðastliðinn og hneppti lýðræðislega kjörna fulltrúa í varðhald. Almenningur hefur víða mótmælt yfirtöku hersins og hefur það kostað blóðug mótmæli þar sem fjölmargir almennir borgarar hafa legið í valnum.
Kyaw Zwar Minn sendiherra kallaði síðan eftir því á opinberum vettvangi nýlega að leiðtoga landsins, Aung San Suu Kyi yrði sleppt úr haldi og nú hefur honum verið kastað á dyr í sendiráðinu af fulltrúum hersins.
Nokkur fjöldi fólks safnaðist saman fyrir framan sendiráðið í London í gærkvöldi þegar fregnir tóku að berast af valdaráni hersins í miðri London og Dominic Raab, utanríkisráðherra Breta hefur þegar fordæmt framferði hersins í garð sendiherrans.