Á Suðurlandi tekur viðvörunin gildi klukkan 16 á morgun, laugardag og gildir til klukkan 23 annað kvöld.
„Austan 20-28 m/s með mjög snörpum vindhviðum við fjöll, hvassast austantil á svæðinu. Einnig má búast við snjókomu eða slyddu og skafrenningi með lélegu skyggni og hættulegum akstursskilyrðum. Ekkert ferðaveður,“ segir á viðvörunarvef Veðurstofunnar.
Klukkan tólf á eftir tekur svo gildi gul viðvörun á Suðausturlandi vegna norðanstorms og gildir hún til 22 í kvöld.
Á morgun klukkan 18 tekur svo appelsínugul viðvörun gildi á Suðausturlandi og gildir hún til miðnættis annað kvöld.
„Austan og norðaustan 20-28 m/s með mjög snörpum vindhviðum við fjöll, hvassast vestan Öræfa. Einnig má búast við snjókomu eða slyddu og skafrenningi með lélegu skyggni og hættulegum akstursskilyrðum. Ekkert ferðaveður,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Þá eru gular viðvaranir í gildi víða um land núna, til að mynda á Austurlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi eystra.
Klukkan 18 á morgun tekur síðan gul viðvörun gildi við Faxaflóa og er í gildi til eitt aðfaranótt sunnudags.
Gul viðvörun er við Breiðafjörð frá því klukkan 19 annað kvöld og fram til klukkan sex á sunnudagsmorgun. Á sama tíma tekur gul viðvörun gildi á Vestfjörðum en gildir aðeins lengur eða til klukkan níu á sunnudagsmorgun.
Nánar má lesa um viðvaranir helgarinnar á vef Veðurstofu Íslands.