Sara hefur nú komið í viðtal hjá einum af stærstu styrktaraðilum hennar en áður hafði komið í ljós að hennar styrktaraðilar ætla að standa með Söru í gegnum þetta mótlæti sem fylgir því að missa úr ár vegna meiðsla.
Sara hefur nú fengið tíma til að jafna sig á þessu áfalli og hún hefur á þeim tíma rætt við þjálfararteymið sitt og sérfræðinga um framhaldið.
„Núna þegar ég veit betur hvað tekur við hjá mér þá líður mér betur með þetta. Ég mun nota þennan tíma í burtu frá íþróttinni minni til að rifja upp grunnatriði íþróttarinnar og vinna í því sem hefur ekki verið í forgangi hjá mér síðustu ár,“ skrifaði Sara í færslu á samfélagsmiðlum.
„Ég get náð fullt af jákvæðum hlutum út úr þessu og hlakka til vinnunnar sem bíður mín. Ég hef tekið þá ákvörðun að ég ætla að verða betri íþróttamaður eftir þessi meiðsli,“ skrifaði Sara.
Sara settist niður með WIF Fitness og ræddi allt í tengslum við meiðslin. Þar útskýrir Sara meiðslin og hvernig þau komu til.
Eins og oft áður með slík meiðsli var það síðasta lyftan á æfingunni sem hafði svona slæmar afleiðingar.
Vinkona Söru var líka að taka upp lyftuna þegar Sara sleit krossbandið og Sara sýndi myndband af því þegar hún sleit krossbandið.
„Ég settist niður með þeim til að fara yfir þetta allt saman og útskýra það hvernig ég meiddi mig og hvernig næstu skref munu líta út hjá mér,“ skrifaði Sara.
Sara ætlar síðan að leyfa fylgjendum sínum að fylgjast með endurhæfingu og endurkomu sinni með myndbandaröð sem kemur inn á samfélagsmiðla.
Hér fyrir neðan má sjá Söru útskýra meiðslin í umræddu myndbandi frá WIT og sjá þegar hún sleit krossbandið í þessari afdrifaríku lyftu.