Ísland mætir Rússlandi klukkan 17 á morgun í fyrsta leiknum á EM. Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði A-landsliðsins, glotti þegar hann rifjaði upp á blaðamannafundi í Þýskalandi í dag að spennustigið hefði verið hátt þegar hann mætti í sinn fyrsta leik á EM U21-landsliða, í Danmörku fyrir tíu árum. Hann hefði að minnsta kosti fengið rautt spjald í leiknum.
Davíð Snorri var spurður hvernig spennustigið væri hjá hinum nýju EM-förum í Ungverjalandi. Hann hefur þjálfað þá í mjög stuttan tíma í U21-landsliðinu en þekkir þá einnig frá störfum sínum með önnur yngri landslið Íslands:
„Ég upplifi þetta þannig að það sé góð stemning og góður gír í mönnum, en jafnframt mikil einbeiting. Auðvitað eru menn spenntir og ég finn að spennustigið er á mjög góðu róli. Við erum með gott jafnvægi á milli þess að vera mjög einbeittir og að vera bara við sjálfir,“ sagði Davíð Snorri í Györ í dag.
Stærsta sviðið og því fylgir meiri athygli
Jón Dagur Þorsteinsson er fyrirliði íslenska liðsins og hlakkar til að berjast við Rússana á morgun. Kórónuveirufaraldurinn kemur í veg fyrir að íslenskir stuðningsmenn geti flykkst til Ungverjalands líkt og þeir gerðu í Danmörku fyrir tíu árum, en Jón Dagur segir menn þó finna áhuga þjóðarinnar.
„Auðvitað er þetta stærsta sviðið. Við áttum flotta undankeppni og maður fann það í gegnum undankeppnina að það voru alltaf meiri og meiri viðbrögð við öllu. Það er bara jákvætt. Það er ástæðan fyrir því að maður í þessu. Maður vill komast sem lengst og því fylgir meiri athygli þegar maður er kominn á þennan stað,“ sagði Jón Dagur.
U21 karla mætir Rússlandi á morgun, fimmtudag, í fyrsta leik á EM 2021.
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) March 24, 2021
Hér má sjá mörk strákana gegn Írlandi þegar þeir tryggðu sér sæti í lokakeppninni með 2-1 sigri ytra.
The goals against Rep. of Ireland that clinched a place at EURO 2021.#fyririsland pic.twitter.com/BingOs7qym
Jón Dagur segir markmið Íslands skýrt:
„Auðvitað förum við í þetta með það markmið að komast upp úr þessum riðli. Fyrst og fremst erum við komnir hingað með það að markmiði að njóta þess að spila fótbolta og gera okkar besta. Þetta er gríðarleg reynsla fyrir hópinn en okkar markmið er skýrt og það er að komast upp úr riðlinum,“ sagði Jón Dagur en til þess þarf Ísland að ná öðru af tveimur efstu sætum riðilsins.
Fyrsti leikur er við Rússa á morgun. Ísland mætir Danmörku á sunnudag og loks Frakklandi næsta miðvikudag.